Miklar deilur geysa nú í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði en eigendur íbúðar í húsinu hafa útbúið aðra íbúð í geymslum íbúðar þeirra, en búið er í geymsluíbúðinni. Hafa eigendurnir alfarið neitað því að vísa íbúum í geymslunni út og sækja um leyfi fyrir framkvæmdunum. Hefur byggingarfulltrúi bæjarins lagt dagsektir á eigendurna en úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur frestað réttaráhrifum þeirra þar til kæra eigendanna hefur verið tekin fyrir.
Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að dagsektirnar eru 20.000 krónur á dag en þær tóku gildi 12. desember síðastliðinn og eiga að leggjast á þar til sótt hefur verið um leyfi fyrir framkvæmdunum og endir bundinn á búsetu í geymslunni. Eigendurnir kærðu ákvörðun byggingarfulltrúans tveimur dögum síðar og gerðu jafn framt þá kröfu að dagsektirnar yrðu ekki lagðar á meðan nefndin er með kæruna til meðferðar.
Boruðu og sitja fast við sinn keip
Málavöxtum er lýst nánar í úrskurðinum. Þar kemur fram í byrjun árs 2024 höfðu eigendur annarrar íbúðar í húsinu samband við byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar vegna óleyfisframkvæmda í kjallara hússins. Að þeirra sögn höfðu umræddir nágrannar þeirra sagað gat í burðarvegg og sett upp salernisaðstöðu í geymslum sem tilheyri íbúðinni og að í þessum rýmum væri búseta.
Byggingarfulltrúi ráðlagði eigendunum sem leituðu til hans að halda húsfund eða hafa samband við húseigendafélagið til þess að reyna að ná sáttum við nágrannana og knýja á um að sótt yrði um byggingarleyfi vegna framkvæmdanna.
Húseigendafélagið sendi eigendunum sem stóðu fyrir framkvæmdunum bréf í maí 2024 þar sem farið var fram á að sameign hússins yrði komið í fyrra horf. Þeim kröfum var hafnað með bréfi frá lögmanni eigendanna í júní. Í byrjun ágúst 2024 fóru ósáttu eigendurnir sem leituðu til byggingarfulltrúans aftur hans fund. Í framhaldi þess fundar sendi byggingarfulltrúi eigendunum sem stóðu fyrir framkvæmdunum bréf þar sem skorað var á þau að látið yrði af búsetu í geymsluíbúðinni hið fyrsta og sótt um leyfi fyrir framkvæmdunum. Var þeim veittur frestur fram í september 2024. Sú beiðni var svo ítrekuð með bréfi í október og bent á að yrði ekki brugðist við erindinu gæti komið til dagsekta.
Click here to preview your posts with PRO themes ››
Dagsektir á ís
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 27. nóvember 2024 var tekin ákvörðun um að leggja á dagsektir að fjárhæð 20.000 krónur á dag frá og með 12. desember 2024 á grundvelli laga um mannvirki og byggingarreglugerðar.
Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er meðal annars vísað í athugasemd með frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum og fram kemur að þar segi að það mæli með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðunin sé íþyngjandi fyrir hann, með því t.d. að valda honum tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.
Nefndin segir að eigendurnir sem kærðu álagningu dagsektanna hafi nýtt sér lögbundinn rétt sinn. Ljóst sé að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða, sem beinist einungis að þeim. Eins og málsatvikum sé háttað þyki rétt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar enda liggi ekki fyrir knýjandi ástæður sem geri það að verkum að varhugavert sé að bíða niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.
Það þýðir einfaldlega að íbúðin í geymslum eigendanna stendur óhreyfð um sinn og dagsektirnar vegna framkvæmdanna verða ekki lagðar á þar til nefndin tekur endanlega afstöðu til þess hvort staðfesta eigi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar um að leggja dagsektirnar á eða fella hana úr gildi.