Undanfarið hefur auð, steingrá bygging, sem staðsett er skammt frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar, vakið undrun. Utan á byggingunni auglýsa sjö bílaleigur starfsemi sína en dyrnar eru læstar og enginn svarar ef hringt er í símanúmer bílaleiganna.
Rútubílstjóri sem ræddi við DV segist hafa farið með erlenda farþega að byggingunni, sem höfðu pantað bíla á leigu en gripið í tómt. Samkvæmt öðrum heimildum DV hafa þó langflestir sem áttu pantaða bíla hjá umræddum leigum fengið götu sína greidda.
Þessar sjö bílaleigur, hverra merki má sjá á myndinni sem fylgir fréttinni, voru allar undir hatti Bílaleigu Reykjavíkur sem tekin var til gjaldþrotaskipta þann 23. maí síðastliðinn. Þær upplýsingar fengust hjá fyrrverandi forsvarsaðila Bílaleigu Reykjavíkur að umrædd fyrirtæki muni öll starfa undir merkjum leigunnar Blue Car Rental. Þeir sem hafi átt pantaða bílaleigubíla hjá einhverjum af þessum leigum fá því úrlausn sinna mála hjá Blue Car Rental. Leigurnar verða hins vegar ekki reknar í umræddu húsi og óvíst er hvað það mun hýsa í framtíðinni.
Er DV reyndi að leita upplýsinga hjá Blue Car Rental um málið og hafði samband við einn eiganda félagsins, neitaði viðkomandi aðili að tjá sig um málið og vísaði á aðra eigendur sem DV hefur ekki náð í.
Click here to preview your posts with PRO themes ››
Merki bílaleiganna sjö sjást inni í flugstöðinni og af þeim sökum ákvað DV að leita álits hjá Isavia um málið. Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi segir að Isavia sé rétt í þessu að fá upplýsingar um gjaldþrot Bílaleigu Reykjavíkur. Hann segir að merki leiganna séu birt í flugstöðinni í gegnum Kynnisferðir:
„Það eru engar auglýsingar frá þessum tilteknum fyrirtækjum í flugstöðinni en hins vegar eru lógóin þeirra gefin upp í tengslum við rekstur á tilteknum skutlrútum sem Kynnisferðir reka. Þessar skutlur keyra frá flugstöðvarbyggingunni að þeim bílaleigufyrirtækjum sem farþegarnir versla við. Þannig að merkingarnar í flugstöðinni eru í tengslum við upplýsingar um þessar skutlur sem Kynnisferðir reka. Það eina sem við getum sagt frekar um þetta er að við höfum fengið þessar upplýsingar, það er verið að fara yfir þetta og þessi skilti verða uppfærð eins og þörf krefur.“