Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fíkniefnalagabrot.
Maðurinn, sem er albanskur ríkisborgari, var handtekinn í fjórgang með skömmu millibili vorið 2023 þar sem fíkniefni fundust í fórum hans.
Þann 16. mars 2023 var hann gómaður með 24,77 grömm af marijúana, 29. mars með 9,46 grömm af efninu, 16. apríl með 12,5 grömm auk 4,64 gramma af kókaíni. Hann var svo gómaður 17. apríl í fyrra með 63,31 grömm af marijúana.
Maðurinn játaði fyrir dómi að hafa haft efnin í vörslum sínum en hafnaði því að þau hafi verið ætluð til sölu og dreifingar í ágóðaskyni. Það sem renndi stoðum undir þá kenningu lögreglu að hann hafi verið að selja efni var sú staðreynd að lögregla fann töluvert magn reiðufjár á manninum.
Segir Albana vera búna að taka yfir íslenska fíkniefnamarkaðinn – „Þessi heimur er að harðna og færast lengra út í myrkrið“
Það gerðist til dæmis í apríl í fyrra þegar lögregla var við almennt eftirlit í Skeifunni. Höfðu lögreglu borist ábendingar um að hann væri að selja fíkniefni og voru myndir af honum með þeim tilkynningum.
Þegar lögreglumenn báðu hann að tala við sig hljóp hann í burtu. Annar lögreglumannanna hljóp þá á eftir honum og gaf honum fyrirmæli um að stöðva sem hann gerði ekki. Þegar lögreglumennirnir loks náðu honum var hann handtekinn og fluttur á lögreglustöð. Við leit á honum fundust 419.000 krónur, 87 dollarar og 7 evrur.
Þá fundust meint kannabisefni og hvítt efni. Reyndist vera um að ræða 4,64 g af kókaíni, sem var í fimm smelluláspokum, og 12,50 g af maríjúana, sem var í 11 smelluláspokum.
Click here to preview your posts with PRO themes ››
Maðurinn gaf skýrslu hjá lögreglu síðar sama dag. Hann kvaðst hafa séð lögreglumenn fara úr bílnum og orðið hræddur og því farið í burtu. Kvaðst hann ekki hafa heyrt þá segja sér að stöðva. Neitaði hann að tjá sig um hvar hann hefði verið áður en hann var handtekinn. Hann kvaðst hafa keypt umrædd efni til eigin nota, en hann hefði verið á leið í samkvæmi. Þar hefði hann ætlað að deila þessum efnum með öðrum.
Aðspurður um peningana sem fundust á honum kvaðst hann hafa verið að selja vændi. Kvaðst hann fá allt að 600.000 krónur fyrir vændisstarfssemina á viku.
Maðurinn gaf skýrslu fyrir dómi í gegnum fjarfundarbúnað og kvaðst lítið sem ekkert muna eftir ákæruatriðum málsins. Hann sagðist hafa komið til landsins til að skemmta sér og verið um það bil mánuð á landinu.
Dómari í málinu blés á þann framburð mannsins að efnin hefðu verið til einkanota og lá til grundvallar þeirri ákvörðun framburður vitna, lögreglu og sú staðreynd að efnunum var pakkað í söluumbúðir.
Maðurinn var sem fyrr segir dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi og er dómurinn skilorðsbundinn til tveggja ára. Þá var honum gert að sæta upptöku á rúmlega 110 grömmum af marijúana, 4,64 grömmum af kókaíni, fjórum farsímum, tveimur símkortum, 500 þúsund íslenskum krónum, 87 amerískum dollurum og sjö evrum. Loks var honum gert að greiða laun skipaðs verjanda síns, 1,1 milljón krónur.