Staksteinahöfundur Morgunblaðsins heldur í dag áfram að velta fyrir sér meirihlutaviðræðum Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins. Viðræðurnar hafa staðið yfir í rúmar tvær vikur og kvaðst Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, um helgina vera vongóð um að það dragi til tíðinda í vikunni.
Í staksteinum Morgunblaðsins í dag er hugsanlegri ráðherraskipan velt upp og hvernig flokkarnir komi til með að skipta með sér ráðherrastólum.
„Sáralítið hefur spurst út af stjórnarmyndunarviðræðum, en þó hefur kvisast út að rætt sé um að ráðherraskiptingin verði 4-4-2, sem hljómar óþægilega mikið eins og leikskipulag án markvarðar, sterk á köntunum en miðjan brothætt,“ segir staksteinahöfundur sem spyr þó hvort þetta sé rétt skipting miðað við fylgi flokkanna í kosningunum.
„Miðað við 21% fylgi Samfylkingar, 16% Viðreisnar og 14% Flokks fólksins væri eðlileg skipting 4-3-3. Enn frekar auðvitað ef Flokkur fólksins hefur þurft að semja frá sér velflest kosningaloforðin, líkt og hvískrað er um,“ segir hann.
Click here to preview your posts with PRO themes ››
Í pistli sínum segir höfundur að það virðist sjálfgefið að Kristrún Frostadóttir verði forsætisráðherra og Þorgerður Katrín geti valið hvort henni hugnist betur fjármálaráðuneyti eða utanríkisráðuneyti. Bendir hann á að í fjármálaráðuneytinu felist meiri völd en vegna ólgu í heiminum og stríðsógna – að ógleymdum Evrópumálunum – kunni hið síðarnefnda að skipta meira máli.
En hvað þá með Flokk fólksins?
„Sagt er í hinum flokkunum að í Flokki fólksins séu of margir sérvitringar til að þar megi finna þrjá ráðherra. Það er gorgeir. Enginn gerir athugasemdir við Ingu Sæland þó hún sé óvenjulegur stjórnmálamaður og Viðreisn dettur ekki í hug að amast við Ölmu Möller þó þeim þyki enginn kostur verri í heilbrigðisráðuneytið. Ásthildur Lóa Þórsdóttir er sjálfsagt ráðherraefni og myndi Ragnar Þór Ingólfsson ekki binda saman vörnina? Inga ræður því,“ segir staksteinahöfundur að lokum.