Það getur verið forvitnilegt að heyra reynslusögur erlendra ferðamanna af upplifun þeirra af Íslandi. Við sem hér búum áttum okkur kannski ekki svo glatt á því hvað breytist yfir langt tímabil en annað má segja um ferðamenn sem koma hingað til lands jafnvel á nokkurra ára fresti.
Í hópnum Visiting Iceland á Reddit má lesa forvitnilega frásögn erlends ferðamanns sem kveðst hafa heimsótt landið í þrígang á síðustu 12 árum. Hann kom fyrst árið 2012, aftur árið 2016 og er svo nýfarinn heim úr sinni þriðju heimsókn.
Meiri traffík
Í færslu í hópnum setur hann á blað nokkrar hugleiðingar um stöðu mála hér á landi og telur upp nokkur atriði sem hafa breyst á síðustu árum að hans mati.
Í fyrsta lagi nefnir hann höfuðborgina, Reykjavík, sem hann segir að hafi „stækkað“. Að minnsta kosti með tilliti til flóru veitingastaða, gististaða og hótela. „Reykjavík er miklu fjölbreyttari en hún var,“ segir hann og bætir við að maturinn á veitingastöðum sé einnig töluvert betri en áður.
Hann nefnir þó að Laugavegurinn sé að breytast í einhvers konar túristagildru þar sem túristabúðir eða minjagripabúðir eru á hverju horni.
Það sem hefur breyst til hins verra er traffíkin út um allt og bætir hann við innan sviga að það sé líklega lággjaldaflugfélögunum að þakka. Fólksfjöldinn á vinsælum ferðamannastöðum sé of mikill nú til dags, til dæmis á Gullna hringnum.
Dýrir leigubílar og „falinn demantur“
Ferðamaðurinn nefnir svo að leigubílar frá Keflavíkurflugvelli séu „hræðilega dýrir“ og það sama megi segja um leigubíla innan borgarinnar. Bætir hann við að leigubílaþjónusta Hopp sé ekki fullnægjandi staðgengill fyrir leigubílaþjónustur Uber/Lyft í öðrum borgum. Þjónustan sé bæði dýrari og framboð af bílum takmarkað. Þá segir hann að strætisvagnakerfið sé enn „hit or miss“ – eða annað hvort gott eða slæmt og fer það líklega eftir því hvert ferðinni er heitið og á hvaða tímum.
Click here to preview your posts with PRO themes ››
Í upptalningu sinni segir hann að Akureyri sé „falinn demantur“ á norðurströnd landsins þar sem veður er gott, fólkið magnað og geggjaður matur. Þá sé Perlan vel þess virði að heimsækja, sérstaklega þegar börn eru með í för.
„Sumir af jöklunum hafa hopað um 400 til 500 metra frá fyrstu heimsókn minni sem er mjög sorglegt,“ segir hann og bætir loks við að veitingastaðurinn Matur og drykkur sé „áhugaverðasti“ veitingastaður landsins.
Nokkrir sem heimsótt hafa Ísland oftar en einu sinni leggja orð í belg í þræðinum og taka undir margt sem fram kemur. „Ég var þarna í september í fyrra og hafði þá ekki komið í 12 ár. Ég ók meðal annars um Snæfellsnes og var brugðið hvað það voru margar rútur á ferðinni og mikil umferð. Ég held að þetta sé í takti við þá ferðamannasprengju sem er að eiga sér stað víða í Evrópu,“ segir einn í þræðinum.
Annar segist hafa komið fyrst árið 2016 og þá hafi tiltölulega fáir ferðamenn verið á landinu. Hann kom svo aftur þremur árum síðar, 2019, og þá hafi hann strax orðið var við gríðarlega fjölgun ferðamanna.
Iceland – Then & Now byu/UranusMustHurt intravel