DV greindi frá í júnímánuði að Magnús Ingi Jensson, sem stefnir á að gangast undir nýrnaígræðslu, þurfi að greiða allan kostnað af dýrum bóluefnum vegna bólusetninga sem eru skilyrði þess að hann komist á biðlista fyrir nýrnaþega. Kostnaðurinn vegna þessa fór á stuttum tíma upp í 100 þúsund krónur.
Sjá einnig: Þarf að gangast undir nýrnaígræðslu en fær ekki bóluefni niðurgreidd hjá Sjúkratryggingum – „Mér finnst þetta vera ómannlegt“
Sjúkratryggingar Íslands hafa nú greint frá því að þessu sé búið að breyta og stofnunin endurgreiði nú allan bólusetningarkostnað vegna líffæraskipta. Í fréttatilkynningu um þetta segir:
„Sjúkratryggingar hafa gert samning við Sahlgrenska sjúkrahúsið í Gautaborg en sjúkrahúsið er aðili að samtökum um líffæraskipti sem kallast Scanditransplant. Við skoðun málsins kom í ljós að fyrir nokkru síðan herti Scanditransplant skilyrði sín gagnvart þeim sem eru á biðlista fyrir líffæri með því að gera kröfu um tilteknar bólusetningar. Þar sem um er að ræða skilyrði fyrir því að fá aðgerðina munu Sjúkratryggingar endurgreiða kostnað sjúklinga við bólusetningarnar. Greiðslur munu berast viðkomandi á næstu dögum og ekki er þörf á að sækja um endurgreiðslu. Varðandi þá sem eiga eftir að fá bólusetningar þá munu Sjúkratryggingar samþykkja umsóknir frá Landspítala um lyfjaskírteini og gilda þá almennar reglur um greiðsluþátttöku í lyfjum. Í framhaldinu munu Sjúkratryggingar ræða verklag vegna þessara bólusetninga við Landspítala sem ber ábyrgð á undirbúningi sjúklinga fyrir líffæraskipti.“