Guðbjörn Guðbjörnsson, óperusöngvari og tollvörður, er harðorður vegna ástandsins í samfélaginu og segir langlundargerð landsmanna gagnvart ríkisstjórninni á þrotum. Guðbjörn dregur upp dökka mynd af efnahagshorfum í pistli sem hann birtir á Facebook-síðu sinni:
„Sú efnahagsstefna sem Sjálfstæðisflokkurinn og fjármálaráðuneytið hafa keyrt hér meira og minna frá hruni og lág- og hávaxtastefna Seðlabankans hafa reynst þjóðinni á endanum hörmulega og verið heimilum og fyrirtækjum dýrkeypt. Hvorki er hægt að kenna almenningi eða atvinnulífinu um hversu illa til hefur tekist, því það eru valdhafar sem bera endanlega ábyrgð. Ríkisstjórnin og SÍ kunna hreinlega ekki til verka, þ.e. kunna hvorki að gróf- eða fínstilla hagkerfið, efnahagslífið. Húsnæðisskortur hefur verið auðsjáanlegur í 5-10 ár, ekkert verið gert og þetta hefur kynt undir verðbólgu í landinu. Endalaus halli hefur verið ríkissjóði, skuldir landsins erlendis sem innanlands hafa aukist mikið og slæm verðbólga leikið almenning illa. Að auki virðast hjól atvinnulífsins vera að hægja mikið á sér; hugsanlega frekar djúp kreppa í aðsigi. Bygging íbúða í landi þar sem húsnæði vantar hefur nánast stöðvast. Vegaframkvæmdir í landi með ónýtar samgöngur hafa nánast stöðvast. Ekki hefur verið virkjað í landi fullu af orku í 10 ár og þar er lítið sem ekkert í farvatninu. Landsmálin alstaðar í algjöru ójafnvægi.“
Guðbjörn segir að ferðaþjónustan berjist í bökkum vegna dýrtíðar, hárra vaxta og hárra launa. Það eina sem blómstri hér á landi sé skipulögð glæpsastarfsemi. Það ófremdarástand sé ábyrgð Sjálfstæðisflokksins sem hafi farið með ráðuneyti dómsmála í langan tíma:
Click here to preview your posts with PRO themes ››
„Þá má ekki gleyma útlendingamálunum, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn ber 100% ábyrgð á því skuggalega ástandi sem ríkir, sem er sennilega með því versta sem gerist innan Evrópu. Það sama má segja um ástandið þegar kemur að öryggi okkar innanlands, þar sem hvert morðið á fætur öðru á sér stað. Það eina sem virkilega blómstrar hér á landi er skipulögð glæpastarfsemi og ofbeldi. Viljum við búa í slíku þjóðfélagi óöryggis, illvirkja og hrottaskapar? Eigum við sem bjuggum í friðsömu ríki fyrir nokkrum árum ekki eitthvað betra skilið en það sem dómsmálaráðuneytið hefur boðið okkur upp á í a.m.k. 10 ár? Jú, við eigum auðvitað skilið almennilega stjórn efnahagsmála og að öryggi okkar og barnanna okkar sé tryggt.“
Guðbjörn segir að Miðflokkurinn sé fyrirsjáanlegur sigurvegari næstu kosninga. Samfylkingin sé eini vinstri flokkurinn sem njóti trausts en skautunin sé mikil og miðjuflokkar njóti ekki fylgist.
Pistilinn má lesa með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan.