Flestir telja að Kristrún Frostadóttir yrði besti forsætisráðherrann að loknum kosningum ef marka má niðurstöður skoðanakönnunar Maskínu sem framkvæmd var dagana 15. til 20. nóvember síðastliðinn. Svarendur voru 1.454 talsins.
Samkvæmt niðurstöðunum telja 27,3% aðspurðra að Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, yrði besti forsætisráðherrann. Þar á eftir kemur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, með 21,3% fylgi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, er svo í þriðja sæti með 13,6% fylgi og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi forsætisráðherra, er í 4. sætinu með 10,3% fylgi. Þar á eftir koma svo Sigurður Ingi Jóhannsson (6,6%), Inga Sæland (4,6%), Sanna Magdalena Mörtudóttir (4,6%), Svandís Svavarsdóttir (2,7%), Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (2,0%), Arnar Þór Jónsson (1,6%) og lestina rekur Jóhannes Loftsson (0,4%). Fimm prósent nefndu engan af ofantöldum.
Kristrún nýtur einnig mest trausts í stól fjármála- og efnahagsráðherra en 37,4% telja að hún yrði besti fjármála- og efnahagsráðherrann. Þar á eftir koma Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (14,3%) og Bjarni Benediktsson (14,0%). Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (9,5%), Inga Sæland (5,5%) og Sigurður Ingi Jóhannsson (5,2%) koma þar á eftir.
Click here to preview your posts with PRO themes ››
Sanna Magdalena Mörtudóttir, Svandís Svavarsdóttir, Arnar Þór Jónsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Jóhannes Loftsson koma svo í næstu sætum þar á eftir – öll með innan við 5% fylgi.