Jón Ólafsson tónlistarmaður er afar ósáttur með umræðu sem geisað hefur í dag og tengist honum. „Margar rangfærslur tengdar mér hafa litið dagsins ljós á spjallþráðum og í fjölmiðlum,“ segir Jón í Facebook-færslu en málið tengist ósætti kollega Jóns, Valgeirs Guðjónssonar, yfir því að honum hafi ekki verið boðið að taka þátt í fyrirhuguðum tónleikum til heiðurs hljómsveitinni Spilverki þjóðanna. Valgeir var einn stofnenda sveitarinnar og áberandi meðlimur í henni frá upphafi.
Sjá einnig: Valgeir telur sig hlunnfarinn og veltir fyrir sér hvort hann sé heiðraður eða lítilsvirtur
Tónleikarnir verða haldnir í Hörpu um helgina. Valgeir hefur tjáð sig í viðtali við DV um þetta sem hann telur vera slaufun á sér. Í dag steig hann fram á Facebook-síðu sinni og afþakkaði boðsmiða á tónleikana og telur að sér hafi verið sýnd lítilsvirðing en ekki heiður. Valgeir afþakkaði boðið með þessum orðum:
„Sæll Einar, óánægja mín hefur ekki farið framhjá þér varðandi hvernig staðið hefur verið að þessum tónleikum sem þú býður mér á. Ég reikna með að Jón Ólafsson hafi verið hönnuðurinn frekar en þið hjá Móðurfélaginu/ Dægurflugunni. – Leiðréttu mig endilega ef það er ekki svo.
Það að fá Diddú í flutning laga okkar og þá son Egils en líta fram hjá mér ( ég get ekki talað fyrir hönd Sigurðar Bjólu ), er særandi og að margra mati ef ekki flestra sýnir það lítilsvirðingu í minn garð.
Væru flytjendur allir úr öðrum áttum myndi það horfa öðruvísi við. Þá hefði samt verið eðlileg og kurteis framkoma að ræða við höfunda um þennan stóra viðburð og reifa hugmyndir um hann.
Tveir af meðlimum Spilverks eiga sér fulltrúa í flutningi laga á þessum tónleikum ( Diddú einn fyrrverandi virkur meðlimur og einn afkomandi, Ólafur Egilsson ) á meðan flutnings er ekki óskað af hinum tveimur meðlimunum, að minnsta kosti hef ég ekki verið beðinn.
Mér þykir leitt að þurfa að afþakka boð ykkar þar sem í mínum huga á orðið heiður ekki heima hér heldur lítilsvirðing. Kær kveðja Valgeir Guðjónsson“
Vill ekki svara rangfærslum og fóðra fjölmiðla
Jón Ólafsson segist ekki vilja svara þeim rangfærslum sem bornar hafa verið á borð um hann í dag því hann vilji ekki gefa fjölmiðlum ókeypis fréttir. Hann segir að dagurinn hafi verið leiðinlegur, hann sé kominn með þykkan skráp en þetta sé ekki í fyrsta skipti sem að honum er vegið með ósanngjörnum hætti. Færsla Jóns er eftirfarandi:
Click here to preview your posts with PRO themes ››
„Mér leiðist sjaldan en í dag hefur verið leiðinlegt.
Margar rangfærslur tengdar mér hafa litið dagsins ljós á spjallþráðum og í fjölmiðlum. Ég hef ekki viljað taka þátt í þessu og búa í leiðinni til ókeypis fréttir fyrir miðlana. Er kominn með ansi þykkan skráp eftir langan feril og þetta er ekki í fyrsta sinn sem að mér er vegið að mér finnst ósanngjarnt. Um helgina spila ég á Heimaskaga og heiðurstónleikum Spilverks þjóðanna og það þarf nú mína óskiptu athygli og orku. Þegar einhver heldur heiðurstónleika þá er það minnsta sem viðkomandi getur gert það að bjóða þeim sem verið er að heiðra á sjálfa tónleikana. Það er gert strax í upphafi þegar hugmyndin er fest á blað og svo eru boðsmiðar sendir í tæka tíð. Ég þakka þeim sem hafa sent mér hvatningu og hlý orð!“