Jónas Haraldsson lögfræðingur sakar tónlistar- og baráttukonuna Möggu Stínu og fleira fólk um skrílslæti á 17. júní síðastliðnum. Þetta kemur fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu.
Jónas segir að hingað til hafi mátt ganga að friðsamlegum hátíðarhöldum á 17. júní vísum en núna hafi brugðið öðruvísi við:
„Mikið var mér brugðið þegar á Austurvöll var komið. Búið var að gefnu tilefni að girða Austurvöll af með stálgrindum og fyrir aftan þær stóðu lögreglumenn með stuttu millibili, viðbúnir því að hugsanlega yrði gerð atlaga að ráðamönnum þjóðarinnar og hátíðargestum, sem þar voru staddir. Að svo sé komið málum að nauðsyn beri til vegna væntanlegra skrílsláta að víggirða þurfi Austurvöll á þessum þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga er hneyksli.
Til þessa hafa hátíðarhöldin 17. júní farið friðsamlega fram. Fólk hefur mætt prúðbúið til að halda upp á og taka þátt í þessum þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga með friði og spekt, hvort heldur viðstaddir hafi verið ánægðir með stjórnvöld á hverjum tíma eða ekki eða þennan eða hinn boðsgestanna, sem væru þar viðstaddir. Á Íslandi ríkir tjáningarfrelsi og mótmæli heimil, en það þýðir ekki jafnframt, að tilgangurinn geti helgað meðalið, eins og sumir virðast greinilega halda.“
Jónas segir að framkoma Möggu Stína og fleira fólks undir hátíðarávarpi forsætisráðherra hafi verið til skammar og lýsir hann atvikinu svona:
„Fram til þessa eða í áttatíu ár hefur aldrei borið á skrílslátum á Austurvelli á þessum merkasta degi okkar Íslendinga. Í þetta skiptið brá öðruvísi við, þegar fámennur hópur kvenna hóf flautublístur og að æpa ókvæðisorð, sem beindust fyrst og fremst að ræðumanni dagsins. Var ég þá staddur fyrir aftan þann, sem greinilega var í forystu í þessum skipulögðu mótmælum, hina hvítklæddu síöskrandi konu. Ekki fullyrði ég um nafn hennar, þar sem ég man ekki hvort heldur hún er kölluð Magga Stína eða Stína Magga. Sú kona kemur mér fyrir sjónir sem ástríðumótmælandi, sem myndi væntanlega mótmæla öllu, sem upp í hugann gæti komið, jafnvel þeim óheyrilega drætti, sem orðið hefur á endurkomu frelsarans, ef ekkert annað betra væri í boði. Aðalatriðið virðist mér þó vera hjá henni að fá útrás fyrir sýniþörf sína og athyglissýki með tilheyrandi hávaða.“
Jónas segir að þegar hann hafi reynt að þagga niður í Möggu Stínu hafi hún sakað hann um ofbeldi og klagað hann fyrir nærstöddum lögreglumanni:
Click here to preview your posts with PRO themes ››
„Að lokum þraut þolinmæði mína þarna með því að ég ýtti samanbrotinni regnhlíf minni í brúna hliðartösku þessarar konu og sagði henni að hætta þessum sífelldu öskrum. Brást hún illa við og ásakaði mig æpandi um ofbeldi í sinn garð og klagaði mig í lögreglumann á staðnum. Nú var gott fyrir hana að geta leitað til lögreglunnar og eiga þar hauk í horni í erfiðleikum sínum.“
Jónas hneykslast á Möggu Stínu fyrir að hrópa ókvæðisorð að lögreglumönnum við skyldustörf og segir raunar að mótmælendur af hennar tagi geri fleira og verra en það:
„Ekki bara að æpa fúkyrði að lögreglunni við lögmæt skyldustörf sín við að vernda stjórnvöld fyrir þessum uppivöðsluseggjum, heldur hrækja á lögreglumennina, grýta í þá hlutum og gera allt sem í þeirra valdi hefur staðið til að torvelda lögreglunni að gæta öryggis ráðamanna þessa þjóðfélags og jafnframt að virðingu Alþingis, sem er auðvitað hvort tveggja hluti af starfssviði lögreglunnar. Svona framkomu er ekki hægt að réttlæta eða þola og verður í framtíðinni að reyna að koma í veg fyrir. Á Íslandi ríkir ekki skrílræði, þar sem fólki er heimilt að hegða sér eins og því sýnist hverju sinni.“
Í lok pistilsins þakkar Jónas lögreglumönnum fyrir val unnin störf í vanþakklátu hlutverki. Hann segist dást að þolinmæði og aga lögreglumanna í samskiptum við vanstillta mótmælendur sem hræki á þá og grýti þá. Óskar hann lögreglunni velfarnaðar í störfum hennar.