Á Facebook-síðunni Spilling í Reykjavík er nú auglýst eftir uppljóstrara. Segir þar að kvikmyndagerðarmaður sem vinnur að heimildarmyndaflokki um Reykjavík vilji komast í kynni við fólk „sem getur varpað ljósi á það hvernig kaupin á eyrinni raunverulega gerast.“
Segir að markmiðið sé að varpa ljósi á „hvernig hagsmunir venjulegs fólks og Reykjavíkurborgar eru hafðir að engu þegar kemur að óskýrru útdeilingu á sameiginlegum verðmætum borgarbúa til stóreignamanna og stórfyrirtækja.“
Þeir sem búa yfir slíkum upplýsingum eru beðnir um að vera í sambandi í gegnum netfangið spillingireykjavik@gmail.com
Facebook-síðan „Spilling í Reykjavík“ þar sem auglýsingin birtist er eignuð félagsskap sem ber heitið „Traust í Reykjavík“. Ábyrgðarmaður þess félags er kvikmyndagerðarmaðurinn Hilmar Páll Jóhannesson. Hilmar birti fyrir kosningar fjölmargar auglýsingar í fjölmiðlum þar sem vegið var að Degi B Eggertssyni, fyrrverandi borgarstjóra og nýkjörins þingmanns Samfylkingarinnar. Hilmar er, ásamt Ingu Lóu Guðjónsdóttur, eigandi Loftkastalans ehf. en þau hafa deilt við borgina í mörg ár um skipulag á lóð fyrirtækisins í Gufunes.
Click here to preview your posts with PRO themes ››
„Reykjavíkurborg hefur slegist við okkur í tvö og hálft ár. Þetta er valdníðsla á hæsta stigi. Það er gjá á milli framkvæmdadeildar og skipulagsyfirvalda í borginni. Þegar búið er að gera skipulag og kynna kemur framkvæmdadeildin og gerir það sem henni dettur í hug,“ sagði Hilmar í viðtali við mbl.is árið 2021.