Gistiheimilinu Langahlíð Guesthouse á Hellu hefur verið lokað. Eigandi hússins hefur birt tilkynningu á ensku utan á húsinu þar sem þetta kemur fram. Þar segir að vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna sé húsinu lokað. Haft hafi verið samband við Booking.com sem viti af stöðunni. Beðist er velvirðingar á vandræðum sem þetta kann að skapa.
Undir þetta skrifar Skúli K Skúlason fyrir hönd eigenda hússins. Hann segir í samtali við DV að þeir sem bókað hafi gistingu í Lönguhlíð í gegnum Booking.com fái endurgreiðslu. Hann vill að öðru leyti ekki tjá sig um málið en vísar í tilkynninguna.
Rekstraraðili Lönguhlíðar Guesthouse er þekktur áhrifavaldur og rappari, Saga B, öðru nafni Berglind Saga Bjarnadóttir.
Sjá einnig: Saga B opnar sig um tónlistina, kjaftasögurnar og ferðalögin í nýjasta þætti af Fókus
Samkvæmt heimildum DV hefur hún boðið upp á bókanir beint í gegnum sig á hagstæðari kjörum en fást í gegnum Booking.com. Kona ein bókaði í janúar síðastliðnum allt gistiheimilið um næstu helgi og greiddi helming verðsins fyrirfram, eða 280 þúsund krónur. Ætlaði hún að halda upp á sextugsafmæli sitt á staðnum og bókaði gistinguna fyrir afmælisgesti. Gerðist þetta í gegnum tölvupóstsamskipti sem gengu greiðlega. Þegar konan hafði síðan samband við Sögu aftur í lok maí bárust engin svör. Slökkt er á farsíma Sögu og Reykjavík Guesthouse og hún svarar ekki tölvupóstum. Ekkert bendir til að konan sem tók gistiheimilið á leigu fái féð endurgreitt.
Click here to preview your posts with PRO themes ››
Ekki liggur fyrir hvort fleiri viðskiptavinir eigi inni fjármuni hjá Lönguhlíð Guesthouse vegna beinna bókana með fyrirframgreiðslu.
DV náði ekki samband við Sögu við vinnslu fréttarinnar.
Á vefnum Booking.com kemur Langahlíð Guesthouse upp sem gistikostur en ekki er þó hægt að bóka gistingu þar lengur í gegnum síðuna.