Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir að staðan í orkumálum hér á landi sé grafalvarleg. Guðmundur segir þetta í samtali við Morgunblaðið í dag en fjallað er um málið á forsíðu blaðsins.
„Næstu fjögur til fimm árin verða mjög erfið og líkur á að einhverjar raforkuskerðingar verði og það bætir ekki úr skák að við erum að fara inn í næsta ár með mjög lága vatnsstöðu í uppistöðulónum sem gæti þýtt að ekki verði næg forgangsorka til í kerfinu,“ segir Guðmundur við Morgunblaðið.
Landsnet gaf í gær út nýja orkuspá sem tekur til áranna 2024 til 2050 en þar kemur fram að spáð sé áframhaldandi vexti í eftirspurn eftir rafmagni, sérstaklega vegna orkuskipta í samgöngum og aukinnar rafeldsneytisnotkunar. Gæti eftirspurnin aukist um allt að 116% árið 2050.
Click here to preview your posts with PRO themes ››
Í samantekt Landsnets segir að viðvarandi orkuskortur sé til skemmri tíma fram til ársins 2029 og aftur til lengri tíma eftir 2040. Líkur séu á forgangsskerðingum á næsta ári og engin úrræði séu til við verstu tilfellum þar sem skerðingar fara umfram heimildir í samningum.
Guðmundur Ingi bendir á í samtali við Morgunblaðið að nýjar virkjunarframkvæmdir eigi að fara af stað samkvæmt rammaáætlun. Óvissa sé þó um framkvæmdir sem búið er að samþykkja og ef þær raungerast ekki verði staðan enn verri.
„Við erum að súpa seyðið af því að framkvæmdir í raforkukerfinu, hvort heldur sem er í flutningskerfinu eða í virkjunum, hafa ekki fylgt þróun í eftirspurn eftir,“ segir hann.