Dómur hefur verið birtur yfir Akureyringi á sjötugsaldri sem dæmdur var í 12 ára fangelsi fyrir misþyrmingar á eiginkonu sinni á sextugsaldri, sem leiddu til dauða hennar.
Maðurinn nýtur nafnleyndar hjá dómskerfinu. Hann var ekki sakfelldur fyrir manndráp, þrátt fyrir að sönnur hafi verið færðar á ofbeldi hans gagnvart konunni, heldur fyrir líkamsárás. Taldi dómari ekki fullsannað að ásetningur ákærða á verknaðarstundu hafi náð til þess að bana brotaþola.
Í dómnum er málavöxtum lýst frá upphafi málsins. Segir frá því að aðfaranótt 22. apríl 2024 kl. 4:30 hafi ákærði hringt í neyðarlínuna og tilkynnt að konan hans lægi á gólfinu og hann héldi að hún væri látin, hún væri köld. Í símtalinu sagðist ákærði hafa séð konuna lifandi á að giska fjórum til sex tímum fyrr. Hann sagði: „Fyrirgefðu, fyrirgefðu.“
Var reykjandi þegar lögreglumenn komu
Samkvæmt lögregluskýrslu var ákærði reykjandi í útidyrunum þegar lögreglumenn komu á vettvang. Fylgdi hann lögreglumönnum inn í hús og sagði: „Hún er bara dáin.“
Konan lá á svefnherbergisgólfinu, hreyfingarlaus. Ástand konunnar var kannað og ekki fundust lífsmörk. Lögreglumaður spurði ákærða hvenær konan féll á gólfið og svaraði hann: „Ég veit það ekki, ég var sofandi sko, hún er bara köld, guð minn góður.“
Maðurinn var síðan handtekinn um hálfsexleytið um morguninn, grunaður um að eiga þátt í láti konunnar.
Krufning á konunni leiddi í ljós mikla áverka, m.a. innvortis, og maðurinn var talinn valdur að þeim.
Sagði konuna hafa verið klaufska og óheppna
Framburður ákærða fyrir dómi var ósannfærandi. Kannaðist hann ekki við áverka á konunni en sagði hana hafa verið óheppna og klaufska. Þegar honum var tilkynnt að konan hefði látist vegna áverka manns sagði hann ekkert slíkt hafa verið í gangi sem hann myndi eftir. Sagðist hann ekki hafa verið að berja konuna „eða neitt svoleiðis“.
Móðir hinnar látnu greindi frá því fyrir dómi að dóttir hennar hefði fyrr á árinu leitað til Kvennaathvarfsins. Móðirin var erlendis er lát hennar bar að. Um þetta segir í dómnum:
„Vitnið L, móðir brotaþola, kvaðst hafa verið erlendis og þær mæðgur ekki hist frá því í október 2023. Hún hafi verið í sambandi við Kvennaathvarfið fyrr á þessu ári og hringt daglega í brotaþola, boðið henni hjálp og hvatt hana til að koma til sín en hún alltaf beðið um vikufrest. Þegar þær ræddu saman hafi brotaþoli yfirleitt verið inn á baðherbergi og hvíslað í símann. Þær hafi rætt saman um viku fyrir andlát brotaþola. Brotaþoli hafi verið undir áhrifum og vitnið heyrt hvað ástandið á henni var slæmt. Meðal annars hafi komið fram að augað væri komið út úr höfðinu á henni.“
Dóttir mannsins bar vitni og var sá vitnisburður honum ekki hagstæður, en um þetta segir í dómnum:
Click here to preview your posts with PRO themes ››
„Vitnið O, dóttir ákærða, kvaðst ekkert samband hafa haft við ákærða síðastliðin 15 ár. Áður hafi hún heimsótt þau og tvívegis búið hjá þeim að sumri. Hún kvaðst minnast þess að hafa í eitt skipti séð blóð og för á hálsi brotaþola, sem hafi sagt að það væri af völdum ákærða. Vitnið kvaðst hafa reynt að fá brotaþola með sér suður en hún hafi verið orðin samdauna ástandinu. Á þeim tíma hafi verið mikil drykkja á heimilinu og erfitt að eiga samskipti við ákærða sem hafi verið skemmdur af áfengisneyslu.“
Fram kemur í dómnum að vinkona hinnar látnu tilkynnti um heimilisofbeldi á heimili hjónanna til lögreglu í ferbrúar, um tveimur og hálfum mánuði áður en konan lést. Lögregla kom á vettvang og voru auðsjáanlegir áverkar á konunni. „Nef hennar var bólgið og aðeins skakkt og blóð í hársverði og hafði lekið niður andlit hennar. Hún var marin og bólgin við hægra auga, með skrámur á vinstri öxl og marbletti á hægri handlegg. Hún sagðist í fyrstu ekkert finna til en sagði síðar að sig verkjaði alls staðar. Sjáanlegur blóðpollur var á eldhúsgólfi sem hafði þó að mestu verið þurrkaður upp,“ segir í dómnum.
Sagður hafa beitt konuna ofbeldi árum saman
Við ákvörðun refsingar var tekið mið af því að maðurinn hefur ekki áður verið dæmdur til refsingar, en einnig var horft til þess að gögn málsins beri með sér að hann hafi beitt konuna ofbeldi árum saman. Konan hafi óttast hann og ekki haft burði til að koma sér úr skelfilegum aðstæðum. Ofbeldið hafi verið viðvarandi og endað með þeim hætti að konan lét lífið. Ákærði er sagður ekki hafa sýnt nein merki um iðrun eða eftirsjá.
Brot mannsins gegn konunni eru sögð vera svívirðileg.
Maðurinn var dæmdur í 12 ára fangelsi. Hann var dæmdur til að greiða 8 milljónir í miskabætur og sakarkostnað upp á tæplega 6,4 milljónir.
Dóminn má lesa hér.