mandag, december 23, 2024

Top 5 i denne uge

Relaterede indlæg

Ólafur Bragi fallinn frá – Eftirlýstur af Interpol í 20 ár

Ólafur Bragi Bragason er látinn 67 ára að aldri. Ólafur var margdæmdur fyrir fíkniefnabrot og var eftirlýstur af Interpol í 20 ár.

Í dánartilkynningu kemur fram að Ólafur Bragi hafi látist á sjúkrahúsi í Amsterdam í Hollandi þann 18. október síðastliðinn. Útförin hefur þegar farið fram.

Prentaðir bolir

Töluvert hefur verið skrifað um Ólaf Braga í gegnum tíðina. Meðal annars hóf fataframleiðandinn CaféPress árið 2004 að prenta boli með mynd af honum. Á bolunum stóð: „Eftirlýstur af Interpol. Íslenski hryðjuverkamaðurinn.“

Óljóst er hvað bolaframleiðandinn átti við með þessu orðavali en Ólafur Bragi var aðallega þekktur fyrir að hafa komist í kast við lögin hvað varðar fíkniefnasmygl.

Handtekinn 20 sinnum

Brotasagan nær aftur til ársins 1976 þegar Ólafur Bragi var handtekinn fyrir að selja bandarískum hermönnum á Keflavíkurflugvelli hass og LSD. Næsta áratug, eða allt til ársins 1985, var hann handtekinn um 20 sinnum vegna fíkniefnamála. Síðasta dóminn afplánaði hann á Íslandi árið 1989.

Eftir það flutti hann til Spánar og komst í samband við fíkniefnaframleiðendur í Marokkó sem seldu honum hassolíu sem hann svo áframseldi til Bretlands. Í Bretlandi var Ólafur Bragi dæmdur í fjögurra ára fangelsi þegar þetta komst upp.

Sagður hættulegur í auglýsingu

Ólafur Bragi kom víða við. Árið 1994 var hann handtekinn og dæmdur í Danmörku eftir að hann var gómaður við smygl á 100 kílóum af hassi til landsins.

Ólafur Bragi fallinn frá – Eftirlýstur af Interpol í 20 ár

DV 12. ágúst 2004

Stærsta málið kom upp árið 1998 þegar hann var grunaður um að hafa flutt tvö tonn af hassi til Túnis. Þarlend yfirvöld lýstu eftir Ólafi Braga og þess vegna endaði hann á lista Interpol. Í auglýsingu Interpol sagði að Ólafur Bragi kynni að vera hættulegur. Fullyrt var í fréttum að hann tilheyrði alþjóðlegum glæpasamtökum.

Click here to preview your posts with PRO themes ››

Þetta ár var Ólafur Bragi handtekinn í borginni Karlsruhe í Þýskalandi en sleppt eftir 40 daga gæsluvarðhald. Var það vegna þess að yfirvöld í Túnis höfðu ekki aflað nægra gagna til að fá hann framseldan til ríkisins, sem er í norðurhluta Afríku. Íslensk stjórnvöld lögðust gegn því að hann yrði framseldur.

Hafnaði því að vera í felum

Í grein DV frá árinu 2004 sagði að eftir að Ólafi Braga var sleppt í Þýskalandi hafi lögmaður hans, Maximilian Endler, sagt að líklega myndi hann reyna að komast aftur heim til Íslands. Lítið hafði hins vegar spurst til hans hér á landi á þessum árum.

Sjá einnig:

Ólafur Bragi rýfur þögnina:„Aldrei falið hvar ég var og er“

Ólafur Bragi var í viðtali við DV árið 2017. Þar hafnaði hann því að vera í felum. Vildi hann þó ekki greina frá því hvar hann væri búsettur.

„Ég hef ekki verið í neinum felum síðan árið 2000,“ sagði hann. „Ég gaf mig fram til yfirvalda og þremur árum seinna var réttað yfir mér og ég fundinn saklaus um að vera hluti af alþjóðlegum glæpasamtökum. Ég hef unnið síðan þá og borgað alla mína skatta. Ég hef fengið öll skírteini og pappíra. Ég hef verið í sambúð í 13 ár. Ég hef aldrei falið hvar ég var og er.“

Populære artikler