Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir segir að hnífaárásir hafi hræðilegar afleiðingar og veki ótta. Því miður virðist slíkar árásir vera að aukast á Íslandi eins og í þeim nágrannalöndum sem við berum okkur saman við.
Ólafur Þór skrifar pistil um málið á Facebook-síðu sína þar sem hann nefnir meðal annars helstu áhættuþættina og hvaða forvarnarþættir eru tiltækir.
Mikið hefur verið rætt um alvarlega hnífaárás sem átti sér stað síðastliðið laugardagskvöld í miðborg Reykjavíkur þar sem 16 ára piltur réðst gegn þremur ungmennum með hníf. Ein stúlka í hópnum slasaðist alvarlega og liggur þungt haldin á Landspítalanum.
En hvers vegna hefur hnífaárásum fjölgað?
„Engin ein orsök er til skýringa, ekki einu sinni aukinn skjátími, en þegar leitað er skýringa með vísindalegum hætti og kannaðir möguleikar á úrbótum þá er það flókið verkefni. Aðferðafræðin felst í að rannsaka alla þá þætti í samfélaginu og félagslegri heilsu sem virðast tengjast versnandi ástandi eða hafi varnandi áhrif,“ segir Ólafur og bætir við að þessir þættir nefnist áhættuþættir (e.Riskfactors) og forvarnarþættir (e. Preventive factors).
„Helstu áhættuþættirnir eru: Kyn (strákar frekar en stelpur), aldur (ungir), fátækt, félagsleg staða, ofbeldisinnræting, geðveiki (aðallega vímusjúkdómar), léleg menntun, lítill stuðningur, vanræksla, ofbeldi eða áföll í bernsku, atvinnuleysi eða skortur á möguleikum á virkni og gengjaómenning.
Click here to preview your posts with PRO themes ››
Þekktir forvarnarþættir eru: Góð félagsleg geta og félagsleg heilsa ásamt sterkri félagslegri stöðu. Eðlilegt sjálfsmat. Menntun. Góð tengsl við foreldra og fjölskyldu. Jákvæðar fyrirmyndir í vinahópnum. Þátttaka í samfélaginu. Gott aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu.“
Ólafur segir að lausnin sé ekki einstaklingsmiðuð því öflugustu forvarnirnar séu það ekki. Þær ættu að beinast að samfélagsgerðinni og sérstaklega bættum hag og félagslegum aðstæðum barnafjölskyldna og unglinga. Segir Ólafur að rannsóknir sýni að samfélagslegar úrbætur og stefnumörkun stjórnvalda sem draga úr áhættuþáttum eða efla forvarnarþætti hafi raunveruleg og góð áhrif.
„Hér gagnast samt engar skyndilausnir. Þetta er best gert með áætlunum til lengri tíma, sem beinast með skipulögðum hætti að rótum vandans (sem birtast í áhættuþáttunum) og skýrri stefnu stjórnvalda um félagslega þætti sem bæta hag barnafjölskyldna, gefa ungu fólki aukin tækifæri og auðvelda uppalendum, kennurum og meðferðaraðilum að rækja hlutverk sitt og skyldur sem allra best. Hugsum til framtíðar. Það er vel mögulegt að gera betur.“