Kona á besta aldri datt í lukkupottinn um helgina þegar hún var ein með fyrsta vinninginn í lottóinu. Um var að ræða níu milljónir króna en óhætt er að segja að aðdragandinn og eftirleikurinn hafi verið með skrautlegra lagi, eins og fram kemur í tilkynningu Íslenskrar Getspár.
Þannig er mál með vexti að óvenju gestkvæmt var hjá konunni á Ströndum vegna smölunar og voru bæði börn og barnabörn í húsi.
„Þetta byrjaði reyndar allt samkvæmt vana þegar konan keypti miðann sinn í Krambúðinni en hún hefur verið fastheldin á hefðirnar gegnum árin og alltaf farið á sölustað og spilað með sömu tölurnar, sem eru afmælisdagar, brúðkaupsdagar og fleira sem tengist fjölskyldunni. Það fór því vel á því að svona margir fjölskyldumeðlimir væru á staðnum með konan fylgdist með útdrættinum á RÚV samkvæmt vana. Okkar konu varð þó um og ó þegar réttu tölurnar byrjuðu að birtast á skjánum og urðu taugarnar svo þandar að hún slökkti á sjónvarpinu áður en síðasta talan var dregin út.“
Í tilkynningu Íslenskrar getspár kemur fram að eftir þetta hafi tekið við óbærileg bið þar til sonur hennar gat fengið staðfestar upplýsingar um lokatölurnar á lotto.is. Brutust eðli málsins samkvæmt út mikil fagnaðarlæti hjá stórfjölskyldunni þegar ljóst varð að stóri vinningurinn kæmi allur á Hólmavík.
Click here to preview your posts with PRO themes ››
„Þegar fólk hafði áttað sig á góðu fréttunum tók við mikil rekistefna meðal viðstaddra um hvernig skyldi varðveita vinningsmiðann þannig að hann mundi örugglega ekki týnast. Hafði hver sína hugmynd en á endanum varð sú frumlega lausn ofan á að losa rafhlöðuna úr fartölvu sonarins og koma miðanum dýrmæta fyrir þar á á bak við og festa á ný. Syninum var síðan falið að koma þessari lukkutölvu til höfuðstöðva Íslenskrar getspár á mánudeginum og rækti hann það hlutverk með sóma, þótt móðirin hafi reyndar séð ástæðu til að hringja tvisvar þann morguninn til að tryggja að allt væri á áætlun. Það má því segja að það hafi tekist vel að smala fé til Hólmavíkur þessa réttarhelgina. Þess ber þó geta að Íslensk getspá mælir ekki með því að vinningsmiðar séu almennt geymdir í rafhlöðuhólfi fartölva þótt allt hafi farið að óskum í þetta sinn.“
Íslensk getspá óskar vinningshafanum innilega til hamingju og þakkar um leið veittan stuðning sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir fatlað fólk, sem og íþrótta- og ungmennafélögin í landinu þar sem þau njóta góðs af allri sölu Lottó.