Samkeppniseftirlitið hefur brugðist við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í gær þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að breyting sem gerð var á búvörulögum á vorþingi stríði gegn Stjórnarskrá. Af því leiðir að þessi lagabreyting er ekki lengur í gildi og samkeppnislög gilda án undanþágu um samstarfs og samruna afurðastöðva.
Í tilkynningu sem Samkeppniseftirlitið hefur birt um málið segir:
„Í tilefni af dóminum hefur Samkeppniseftirlitið í dag ritað kjötafurðastöðvum og samtökum þeirra bréf. Í þeim er vakin athygli á því að samkvæmt dómi héraðsdóms samræmdust undanþáguheimildir búvörulaga ekki stjórnskipunarlögum og öðluðust því ekki lagagildi. Vegna þessa gildi samkeppnislög því fullum fetum um samstarf og samruna kjötafurðastöðva. Hafi kjötafurðastöðvar því ekki notið neinnar undanþágu frá ákvæðum samkeppnislaga.
Jafnframt er vakin athygli á því samkeppnislög banna samninga og samþykktir milli fyrirtækja sem raska samkeppni, sem og samkeppnishömlur af hálfu samtaka fyrirtækja. Einnig er vakin athygli á því að tilkynna þarf Samkeppniseftirlitinu fyrirfram um samruna fyrirtækja yfir tilteknum veltumörkum. Þá leggja samkeppnislög bann við því að samruni komi til framkvæmda á meðan Samkeppniseftirlitið fjallar um hann.
Í bréfunum er eftirfarandi beint til kjötafurðastöðva:
- Að stöðva þegar í stað hvers konar aðgerðir eða háttsemi sem farið getur gegn samkeppnislögum og stofnast hefur til á grundvelli umræddra undanþáguheimilda.
- Óskað er eftir upplýsingum hvort viðkomandi fyrirtæki hafi verið skilgreint sem framleiðendafélag í skilningi búvörulaga, en samkvæmt lagabreytingunum var það forsenda þess að kjötafurðastöðvar gætu nýtt sér undanþáguheimildirnar.
- Hafi viðkomandi kjötafurðastöð ráðist í samruna eða samstarf á grundvelli undanþáguheimildanna er lagt fyrir fyrirtækið að varðveita allar upplýsingar og gögn sem varpa ljósi á þá háttsemi sem í hlut á. Í því sambandi er vakin athygli á því að það getur varðað fyrirtæki stjórnvaldssektum og einstaklinga refsingu að koma undan eða gera á annan hátt ónothæf gögn sem hafa þýðingu í síðari rannsóknum.“
Sjá nánar hér.