Jón Viðar Jónmundsson, fyrrverandi landsráðunautur Búnaðarfélags Íslands í sauðfjár- og nautgriparækt, sakar höfunda bókarinnar Forystufé og fólkið í landinu um ritstuld.
Þetta kemur fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu. Þrátt fyrir ásökunina segist Jón Viðar ekki vilja rekja ritstuldinn nákvæmlega en vísar til greinar sem hann átti þátt í að skrifa og birtist árið 2015:
„Ritstuldurinn er of langur til að rekja hér lið fyrir lið. Lesendum aðeins bent á grein sem ég skrifaði 2015 með ágætu samstarfsfólki og heitir „Forystufé á Íslandi“ og held að standi undir nafni. Greinina birtum við í því góða riti Náttúrufræðingnum. Á síðu 99 er undirkafli sem heitir „Einkenni forystufjár“. Lesið nú þetta á móti síðu 9 og 10 í bók kumpánanna. Verður komist öllu lengra í að stela efni?“
Jón Viðar leitaði til annars höfundar bókarinnar, en þeir eru tveir, og óskaði eftir afsökunarbeiðni. Því erindi var hafnað. Í grein sinnni í Morgunblaðinu fer Jón Viðar fram á að útgefandinn, Veröld, biðji hann opinberlega afsökunar vegna ritstuldarins. Jón Viðar skrifar:
„Strax og ég sá ritþjófnaðinn hringdi ég í Daníel og bauð honum að biðjast afsökunar á slysinu opinberlega og málinu væri þar með lokið. Mér til undrunar neitaði hann strax. Við þetta bættist að góðvinur minn Lárus Birgisson sagðist hafa fengið umræddan texta til yfirlestrar. Hann hefði bent þeim á að geta heimilda eins og siðað fólk gerir. Ákvarðanir þeirra blasa við öllum á síðum bókarinnar. Í ljósi þessa virðast það hafa verið samantekin ráð kumpánanna.
Mér er það ekki áhugamál að koma fólki í steininn. Hins vegar vil ég framkomu siðaðs fólks og að mistök séu viðurkennd opinberlega og beðist afsökunar á þeim. Útséð virðist um þau viðbrögð hjá höfundum. Viðbrögð Daníels rakin. Ömurlegri viðbrögð Guðjóns vil ég hans vegna ekki rekja nema segja að hann hringdi í mig strax eftir að ég ræddi við Daníel og tilkynnti að hann ætlaði strax að biðjast afsökunar opinberlega. Það var sams konar lygi og annað sem ég hef kynnst frá hans hendi. Nú er það skoðun mín að Guðjón sé ábyrgur fyrir ritstuldinum. Daníel aðeins af drengskap ætlað að verja ræfilinn.
Það er von mín að forlagið Veröld viðurkenni athafnir drengjanna og biðjist afsökunar á þeim opinberlega.“
Uppfært kl. 13:15 – Afsökunarbeiðni birtist fyrir löngu
Bókaútgáfan Veröld hefur sent DV tölvupóst og bent á að afsökunarbeiðni vegna málsins hafi birst á vef útgáfunnar þann 22. nóvember árið 2023. Þar segir:
Click here to preview your posts with PRO themes ››
„Þau leiðu mistök urðu við gerð bókar okkar Forystufé og fólkið í landinu að greinarinnar og höfunda hennar „Forystufé á Íslandi“, sem birtist í Náttúrufræðingnum (85. árg., 3.–4. hefti, 2015, bls. 99–100), var ekki getið þar sem texti úr greininni er tekinn upp bls. 8–9 í bókinni.
Höfundar greinarinnar eru Jón Viðar Jónmundsson, Lárus G. Birgisson, Sigríður Jóhannesdóttir, Emma Eyþórsdóttir, Þorvaldur Kristjánsson og Ólafur Dýrmundsson.
Við biðjumst velvirðingar á þessum mistökum. Þau verða leiðrétt í nýjum útgáfum.
Daníel Hansen
Guðjón R. Jónasson“