Hreint út sagt ótrúlegt veður hefur verið á landinu síðastliðinn sólarhring og mældist til dæmis 22,9 stiga hiti á Sauðanesi við Ólafsfjarðarveg í Múla skömmu fyrir miðnætti í gærkvöldi.
„Hitatölurnar norðaustanlands hefðu sómt sér vel 11. júlí síðdegis einhvern góðviðrissumardaginn. En þetta er eiginlega fáránlegt kl. 23 þann 11. nóvember,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á Facebook-síðu Bliku.
Hann segir að skjót yfirferð leiði í ljós að hitinn í gærkvöldi hafi komist í 20 stig á ekki færri en átta veðurstöðvum norðaustanlands. Það verður áfram milt í veðri fyrir norðan í dag og á Akureyri verður til dæmis 14 stiga hiti og heiðskírt klukkan 10.
Þó er vakin athygli á því á vef Veðurstofunnar að hvasst verður í veðri og taka gular viðvaranir gildi í mörgum landshlutum í dag vegna sunnan hvassviðris eða storms.
Click here to preview your posts with PRO themes ››
Á Norðurlandi eystra tekur til dæmis gul viðvörun gildi um miðjan dag og má búast við suðvestan 15 til 23 metrum á sekúndu og vindhviðum yfir 35 metra á sekúndu við fjöll. Viðvörunin er í gildi fram til klukkan 18 annað kvöld.
Gular viðvaranir taka einnig gildi á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra, Austurlandi, Suðausturlandi og Miðhálendinu þar sem varasamt ferðaveður verður seinni partinn í dag og fram á morgundaginn.