Bók Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrverandi forseta, Þjóðin og valdið, hefur vakið gífurlega athygli. Í bókinni birtir Ólafur afar bersögular og opinskáar dagbækur sínar frá þeim tímum er hann neitaði að undirrita lög frá Alþingi, annars vegar fjölmiðlalög sem runnin voru undan rifjum Davíðs Oddssonar, og hins vegar lög ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur um uppgjör Icesave-skulda Landsbankans.
Sjá einnig: Ólafur Ragnar fer hörðum orðum um Davíð – „Heiftin og löngunin til að sýna valdið hefur knúið hann áfram“
Dagbókarfærslur Ólafs frá því í byrjun árs 2010 lýsa mikilli spennu á meðal ráðamanna vegna Icesave-frumvarpsins númer tvö og óhætt er að segja að sett hafi verið mikil pressa á forsetann sem lá undir feldi og hugleiddi örlagaríka ákvörðun. Meðal þeirra sem settu þrýsting á forsetann var Már Guðmundsson, þáverandi Seðlabankastjóri, eða eins og segir á blaðsíðu 195, í færslu sem Ólafur ritaði í dagbók sína þann 3. janúar 2010:
„Síðdegis á gamlársdag, kl. 16:45, hringdi Már G. rétt áður en ég fór til kirkju hér á B til að segja mér að ég yrði að taka ákvörðun, þ.e. skrifa undir ,,áður en markaðir opnuðu á mánudag“. Ég yrði að lesa nýtt álit Standard & Poor´s þar sem reiknað væri með staðfestingu á Icesave. Ef ég skrifaði ekki undir færi Ísland „í ruslflokk sem hefði margvíslegar afleiðingar“. Ég sagði Má að ég væri að fara í messu. Varðandi Standard & Poor´s þá hefði ég lesið lof þeirra um frábæra stöðu íslensku bankanna um mitt ár 2008! Már ítrekaði þetta í stuttu kommenti á nýársdag þegar hann kom í móttökuna og í símtali við ÖT [Örnólf Thorsson forsetaritara – innskot DV]. Ég lét ÖT spyrja hann hvað hann ætti við um viðbrögð markaða en engin skýr svör komu frá Má um það! Þetta var svona pressa af hans hálfu. Í fyrsta sinn sem hann hringir síðan hann varð seðlabankastjóri.
Við fjölskyldan, Dalla, Tinna og co., vorum hér á Bessastöðum eins og oft, í 14. sinn, en keyrðum svo út á Seltjarnarnes til að vera þar við brennuna. Dorrit var hér heima uppi í rúmi. Svo sprengdum við mikið af flugeldum. Allt var þetta í hefðbundnum dúr. Var gaman að því hvernig krakkarnir tóku þátt í þessu, jafnvel Ólafur sem horfði hugfanginn á flugeldana.
Ég fór svo í hefðbundna göngu á nýársmorgun, hlustaði í útvarpi á meðan á predikun Karls biskups. Svo á flutning eigin ræðu. Fannst hún virka vel enda ræðan fengið góð viðbrögð. Margir hælt henni á netinu og í nýársmóttökunni. Í ummælum ýmissa embættismanna í nýársmóttöku kom fram að ég ætti að skrifa undir en Gunnar Eyjólfsson (leikari) sagðist hafa skrifað undir InDefence eftir ræðuna!
Merkilegt var að Össur og SJS [Steingrímur J. Sigfússon – innskot DV] mættu ekki í nýársmóttökuna. Fannst mér það hvorki klókt né stórmannlegt af þeim. Össur hringdi hins vegar tvisvar í ÖT í gær. Lá sæmilega vel á honum, var farinn að átta sig á að ég gæti e.t.v. ekki skrifað undir, sagðist hafa fundið það í samtölum við mig (e.t.v. skynjað tóninn um daginn!). Sagði í fyrra samtalinu við ÖT að stjórnin færi þá frá, en var orðinn mildari í síðara samtalinu. Talaði þá um að undirbúa yrði viðbrögð við niðurstöðunni. Áttar sig á að það er ekki kórrétt að við tölum saman fyrr en ég er búinn að tala við JS [Jóhönnu Sigurðardóttur – innskot DV] og SJS.“
Nakinn með Steingrím J í símanum
Í langri færslu frá 4. janúar 2010 lýsir Ólafur mikilli vinnu og yfirlegu við að móta yfirlýsingu sína um að neita lögunum staðfestingar. Hann lýsir spennuþrungnum viðræðum við ráðherra. Til tals kemur annars vegar að ríkisstjórnin segi af sér ef Ólafur neitar að staðfesta lögin og hins vegar að Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, hóti að segja af sér. Síðan segir:
Click here to preview your posts with PRO themes ››
„Þegar ég var svo að koma úr sturtunni rétt fyrir kl. 10 í morgun eftir kappgönguna og morgunæfingarnar þá hringdi SJS í mig og talaði ég við hann nakinn. Sagði hann að ÖS hefði rætt við sig eftir fund okkar. Hann vildi segja mér alveg skýrt að ef ég samþykkti ekki lögin þá væri honum ekki fært að sitja áfram. Hann teldi að JS myndi fylgja sér og biðjast lausnar fyrir ríkisstjórnina. SJS sagðist hafa reynt tvisvar að ná samningi og treysti sér ekki til að reyna í þriðja sinn. Hefði ekki orku í það. Hann væri búinn að vera andvaka yfir þessu síðan á gamlársdag. Þetta væri niðurstaða hans.
Ég sagðist hlusta á þessi rök og skildi þau að vissu leyti. Sagði við hann eins og forsætisráðherra að lögin tækju gildi ef ég staðfesti ekki. Þá væru þau bara að demonstrera á forsetann. Ef ætti að fara eftir þeim þá væri í reynd verið að afhenda ráðherrum vald yfir málskotsréttinum. Auk þess hefðu bæði Samf. og VG lengi talað fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum. Ég vildi einnig segja við hann, eins og JS í gær, að ég myndi ekki samþykkja slíka afsögn, a.m.k. ekki í fyrstu, því ég teldi ekki völ á betri ríkisstjórn eða betri fjármálaráðherra. SJS sagði að engum yrði haldið nauðugum í ráðherrastól. Ég sagðist vita það og skildi hið mannlega sjónarmið þótt ég teldi slíka ákvörðun ranga, a.m.k. nú. Hitt væri annað mál ef lögin yrðu felld í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þakkaði ég honum fyrir símtalið og kvöddumst við í vinsemd.“
Stuttu síðar hringdi Kristján Guy Burgess, aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar utnaríkisráðherra, í dóttur Ólafs og forsetaritarann, og tjáði þeim að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra myndi segja af sér. Hann hringdi síðan í Ólaf sem sagði við hann að ekki væri rétt að hann ræddi við aðstoðarmann utanríkissráðherra.
Ólafur lýsir einnig þrýstingi frá Gylfa Magnússyni viðskiptaráðherra en ritar síðan:
„Ég er hins vegar afar rólegur yfir þessari ákvörðun og stöðu þótt óvissan sé veruleg um hvað taki við í kjölfar ákvörðunar minnar, bæði pólitískt og efnahagslega. En þá er að taka því. Kannski verður atburðarásin þannig að við komumst ekki til Indlands.“