Nýlega birtu Arion banki og Íslandsbanki uppgjör fyrir fyrstu sex mánuði ársins. RÚV vekur athygli á því að uppgjörin eru á ensku en úrdráttur úr þeim var birtur á íslensku.
Í svörum bankanna við fyrirspurn RÚV kemur fram að fjármögnun og hluthafahópur þeirra sé að hluta til erlendis frá. Mikil vinna fylgi því að láta þýða reikningana og hætta sé á misræmi.
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslensku, er afar ósáttur við þessa afstöðu bankanna. Í ummælum við færslu um málið á Facebook, í hópnum Málspjall, leggur hann til að Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, veiti bönkunum tiltal:
„Þetta er óþolandi. „Í svari Arion banka segir meðal annars að því fylgi mikil vinna að gefa út árshlutareikninga bæði á íslensku og ensku.“ „Mikil vinna“ merkir hér væntanlega ‘mikill kostnaður’ en í ljósi þess að hagnaður bankans á öðrum ársfjórðungi var 5,5 milljarðar er þetta hlægileg viðbára. Ríkissjóður Íslands á 42,5% í Íslandsbanka og í fréttinni kemur fram að íslenskir aðilar eigi hátt í 90% hlutafjár í báðum bönkum. Ég treysti því að Lilja D. Alfredsdottir menningar- og viðskiptaráðherra veiti bönkunum tiltal.“
Click here to preview your posts with PRO themes ››
Lilja Alfreðsdóttir hefur svarað þessari brýningu Eiríks og segist vera komin í málið. „Takk fyrir aðhaldið og hvatninguna,“ segir hún ennfremur.