Samtök íþróttafréttamanna hafa birt nöfn tíu íþróttamanna sem eiga möguleika á því að vera kjörnir á íþróttamaður ársins 2024, en valið fer fram þann 4. janúar næstkomandi.
Sigmundur Steinarsson, fyrrverandi íþróttafréttamaður og höfundur margra bóka um íþróttir, telur með ólíkindum að Thelma Aðalsteinsdóttir fimleikakona sé ekki á listanum. Hann segir besta íþróttamann landsins hafa gleymst og spyr eftir hverju sé farið við valið.
Þetta kemur fram í pistl á Facebook, þar sem Sigmundur segir:
„Mér brá óneitanlega mikið í kvöld, þegar ég sá á RÚV, þegar tilkynnt var hvaða 10 íþróttamenn kæmu til greina að vera útnefndir Íþróttamaður ársins – að Thelma Aðalsteinsdóttir, 24 ára fimleikakona úr Gerplu, var ekki í hópi þeirra. Eftir hverju er farið, þegar afrek íþróttamanna eru metin?
Thelma, sem var kjörin fimleikakona ársins hjá Fimleikasambandi Íslands á dögunum, átti hreint frábært ár og sagt er um hana:
„Árangur Thelmu á árinu hefur verið stórglæsilegur þar sem hæst ber að nefna Norður Evrópumóts titla á öllum áhöldum (4 GULL!) auk þess sem Thelma varð í 2.sæti í fjölþraut og var í kvennaliðinu, sem varð í 3.sæti í liðakeppninni.
Thelma er Íslandsmeitari í fjölþraut og á stökki, slá og gólfi, auk þess að vera bikarmeistari með félagsliði sínu, Gerplu.
Thelma var fastakona í landsliði Íslands á árinu. Með liðinu varð hún Norðurlandameistari ásamt því að sigra í gólfæfingum.
Á Evrópumótinu framkvæmdi Thelma nýja æfingu á tvíslánni sem er komin í dómarabókina og nefnd Aðalsteinsdóttir eftir henni.
Thelma keppti einnig á tveimur heimsbikarmótum þar sem hún komst í úrslit á slá, gólfi og stökki.““
Sigmundur telur með ólíkindum að nafn Thelmu vanti á þennan lista. Á vef Fimleikasambands Íslands segir ennfremur um afrek hennar:
Click here to preview your posts with PRO themes ››
„Besti árangur Íslands frá upphafi. Dagur sem fer í sögubækurnar og verður seint toppaður.
Thelma er fjórfaldur Norður-Evrópumeistari. Hún kláraði þennan ævintýralega dag með því að rústa gólfæfingum og vinna þar með öll gullin sem í boði eru í úrslitum á áhöldum. Þvílíkt og annað eins hefur ekki gerst í manna minnum og verður seint toppað. Gullkonan sem er búin að vinna verðlaun í öllum þeim keppnum sem hún hefur tekið þátt í á þessu móti. Silfur í fjölþraut og brons í liðakeppninni, þannig að hún fékk alla litina af verðlaunum sem eru í boði.
Thelma gat ekki klárað keppnistímabilið, á alþjóðlegum vettvangi, betur en hún gerði í dag. Þvílík íþróttakona!“