„Það kemur mér á óvart hvað þessum árangri hefur lítill gaumur verið gefinn af fjölmiðlum, íþróttaforystunni og ráðmönnum. Og það þrátt fyrir ábendingar,“ segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Þar vekur hann athygli á mögnuðum árangri Elínborgar Björnsdóttur sem varð á dögunum heimsmeistari í pílukasti í sínum flokki. Elínborg, sem var afreksíþróttamaður í sundi og landsliðskona í pílukasti, slasaðist alvarlega í bílslysi og örkumlaðist árið 2020.
Ásmundur byrjar grein sína á að vísa í umfjöllun fjölmiðla um Ólympíuleikanna í París og ber hann lof á það hversu vel var staðið að umfjöllun um leikana. Bendir hann á að aldrei sé of mikið sagt frá íþróttum og gildi þeirra fyrir börn og unglinga sem hrífast með og eignast sínar stjörnur.
Mikill dugnaður og eljusemi
„Þrátt fyrir þunnskipað keppnislið okkar fannst mér árangurinn góður. Það er frábært að eiga fólk sem er um og undir tuttugasta sæti á slíkri íþróttamessu sem Ólympíuleikarnir eru. Við erum smáþjóð að etja kappi við keppendur frá hátt í tvö hundruð þjóðríkjum og þá er frábær árangur að komast í undanúrslit, hvað þá lengra,“ segir hann.
Maðurinn sem örkumlaði Ellu dæmdur – „Ég fékk lífstíðardóm en hann sjö mánuði“
Hann bendir svo á að þegar keppni á Ólympíuleikunum var í hámarki um verslunarmannahelgina var haldið í Skotlandi heimsmeistaramót fatlaðra í pílukasti þar sem Elínborg var á meðal þátttakenda.
Click here to preview your posts with PRO themes ››
„Af miklum dugnaði og elju hefur Elínborg, sem nú er bundin hjólastól og nýtur aðstoðar allan sólarhringinn, komist til keppni að nýju. Hún varð í öðru sæti í sínum flokki, fatlaðar konur í hjólastól, á Evrópumeistaramóti í pílukasti fyrir ári og vann sér rétt á heimsmeistaramótinu í Edinborg í Skotlandi nú í ágúst. Elínborg gerði sér lítið fyrir og vann á mótinu og varð heimsmeistari í sínum flokki,“ segir Ásmundur.
Ekkert mál að verða heimsmeistari?
Hann segir það hafa komið honum á óvart hversu litla athygli þessi árangur Elínborgar fékk.
„Það er kannski ekkert mál að verða heimsmeistari fatlaðra í pílukasti vegna þess að afreksstefnan nær ekki til þeirra. Það hefur allavega verið þrautaganga að fjármagna keppnisferðir Elínborgar, og henni jafnvel sýndur lítill skilningur. En vonir hennar stóðu til að heimsmeistaratitill og jákvæð umfjöllun um þann árangur hjálpaði henni að fjármagna frekari keppnisferðir í framtíðinni,“ segir Ásmundur sem endar grein sína á þessum orðum:
„En kannski er heimsmeistaratitill í pílukasti fatlaðra ekkert mál fyrir þá sem hafa ekki séð tærnar á sér í mörg ár. Þeirra glaumur og gleðiskál hljómar alla vega ekki í eyrum heimsmeistarans í pílukasti fatlaðra kvenna í hjólastól, sem spyr sig: Er það ekkert mál fyrir litla þjóð að eignast heimsmeistara?“