Fullyrt er að í leyniskjali bandarískra stjórnvalda sé kveðið á um að ætlun þeirra sé að fá fjögur ríki til að segja skilið við Evrópusambandið. Þetta eru Ungverjaland, Austurríki, Ítalía og Pólland.
Það er bandarísk vefsíða sem sérhæfir sig í umfjöllun um varnarmál, Defense One, sem segist hafa komist yfir skjalið sem sé leynilegur hluti af nýrri þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna sem kynnt var á dögunum. Er áætlun þessa efnis sögð vera kölluð í skjalinu „Make Europe Great Again.“ Í þjóðaröryggistefnunni er Evrópa sögð á fallandi fæti ekki síst vegna straums innflytjenda þangað og ríki álfunnar sögð ekki vera traustir bandamenn fyrir Bandaríkin.
Að sögn Defense One er einnig í skjalinu kveðið á um að Bandaríkin muni styðja stjórnmálaflokka og hreyfingar sem vilji styrkja fullveldi Evrópuríkjanna og að varðveita og endurreisa hinn „hefðbundna evrópska lífsmáta.“ Ætlunin mun vera að slíta þessi ríki frá Evrópusambandinu en að þau verði vilhöll Bandaríkjunum.
Click here to preview your posts with PRO themes ››
Hvíta húsið í Washington afneitar tilvist þessa skjals og segir enga leynilega útgáfu af þjóðaröryggisstefnunni vera til. Öll stefnan hafi verið birt opinberlega.
Í stefnunni er Evrópusambandinu hallmælt og það sagt grafa undan fullveldi og styrk aðildarríkja sinna.
Segir Donald Trump Bandaríkjaforseti að stefna margra Evrópuríkja í málefnum innflytjenda muni að öllu óbreyttu gera út um þau.
Trump hefur áður lofað Viktor Orbán forsætisráðherra Ungverjalands, Karol Nawrocki forseta Póllands og Giorgia Meloni forsætisráðherra Ítalíu en þau hallast öll töluvert til hægri í stjórnmálum. Það virðist því helst vera vegna persónulegra tengsla hans við leiðtoga þessara ríkja að Bandaríkin séu sögð vilja þau út úr Evrópusambandinu. Hvers vegna Austurríki er einnig nefnt til sögunnar er óljóst en hinn hægri-popúlíski Frelsisflokkur, sem ætti að vera einna líklegastur af stjórnmálaflokkum landsins til að vera Trump að skapi, er í stjórnarandstöðu.


