Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjaness yfir hælisleitanda fyrir að áreita barn í búningsklefa kvenna á sundstað og líkamsræktarstöð.
Atvikið átti sér stað þann 13. mars árið 2022. Þá gekk maðurinn inn í búningsklefa kvenna þar sem er sundlaug og líkamsræktarstöð. Inni í klefanum var nakin 14 ára stúlka. Viðhafði maðurinn ummæli um líkama hennar og spurði hana persónulegra spurninga. Bauð hann henni að sjá líkama sinn og girti niður um sig en stoppaði eftir að stúlkan sagði „nei“.
„Með þessu særði hann blygðunarsemi hennar og sýndi henni ósiðlegt athæfi,“ segir í ákæru.
Um málavexti segir meðal annars þetta í dómnum, en þar kemur fram að maðurinn er hælisleitandi:
„Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var tilkynnt síðdegis sunnudaginn 13. mars 2022 um hælisleitanda sem hafi farið inn í kvennaklefa í […] og áreitt þar 14 ára stúlku. Á vettvangi tók starfsmaður sundlaugarinnar á móti lögreglumönnum og var það faðir stúlkunnar sem um ræðir þ.e. brotaþola. Móðir hennar var einnig á vettvangi. Faðir brotaþola kvaðst hafa boðið henni að fara á æfingu í líkamsræktaraðstöðu sundlaugarinnar. Brotaþoli hafi síðan komið til föður síns í miklu uppnámi og sagt að maður, sem hafi verið dökkur á hörund, hafi áreitt hana í kvennaklefanum. Faðir hennar kvaðst hafa séð mann dökkan á hörund á biðstöð strætisvagna í nágrenni sundlaugarinnar og spurt brotaþola hvort það væri umræddur maður og hún hafi játað því. Maðurinn hafi þá gengið til þeirra og faðir brotaþola skammað manninn og látið hann vita að svona ætti hann ekki að gera. Hann hafi þá beðist afsökunar og hlaupið á brott.“
Fyrir dómi viðurkenndi ákærði að hafa farið inn í kvennaklefann en sagði að það hefði verið fyrir mistök. Engu að síður kom fram í máli hans að hann hefði oft áður komið í sundlaugina. Ákærði sagðist hafa verið í kvennaklefanum í um eina mínútu en það stemmir ekki við gögn úr eftirlitsmyndavélum á staðnum. Um þetta segir í texta dómsins:
Click here to preview your posts with PRO themes ››
„Á upptökum úr öryggismyndavél í sundlauginni, sem er meðal rannsóknargagna málsins, sést ákærði ganga mörgum sinnum af gangi og inn í kvennaklefa sundlaugarinnar. Í síðasta skiptið var hann inn í klefanum í tvær til þrjár mínútur. Framburður ákærða um það hvað hann var lengi inn í klefanum stenst því ekki. Þá var framburður hans um klæðnað brotaþola þegar hann kom að henni í klefanum ekki á sama veg hjá lögreglu og fyrir dómi. Framburður ákærða fær hvorki stoð í framburðum vitna né rannsóknargögnum málsins og er í raun í andstöðu við þau. Framburður ákærða virðist því byggja á því að hann sé að réttlæta háttsemi sína og fegra sinn hlut. Framburður ákærða er ótrúverðugur og verður því ekki lagður til grundvallar þegar komist verður að niðurstöðu í málinu.“
Maðurinn var sakfelldur og dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Hann var einnig dæmdur til að greiða stúlkunni 500 þúsund krónur í miskabætur.
Dóma Landsréttar og héraðsdóms í málinu má lesa hér.