torsdag, oktober 16, 2025

Top 5 i denne uge

Relaterede indlæg

Erfið færð í morgunsárið en á morgun tekur alvaran við – Asahláka og úrhellisrigning í kortunum

Umferð hefur gengið hægt víða á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni nú í morgunsárið og þegar þetta er skrifað er Reykjanesbraut lokuð milli Fitja og Grindavíkurvegar í áttina að Reykjavík. 

Í tilkynningu sem lögreglan á Suðurnesjum birti á Facebook-síðu sinni í morgun mátti sjá að akstursskilyrði á Reykjanesbraut voru orðin erfið og höfðu tvö ökutæki runnið út af. Blessunarlega slasaðist enginn.  Þá var Grindavíkurvegur orðinn þungfær og lokaðist hann í norðurátt vegna ökutækis sem festist við Gíghæð. Í tilkynningu sem lögregla birti á Facebook rétt fyrir klukkan 9 kom fram að búið væri að loka Reykjanesbraut milli Fitja og Grindavíkurvegar í átt að Reykjavík.

Gular viðvaranir eru í gildi á Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði, Vestfjörðum og Miðhálendinu vegna suðaustanhríðarveðurs og gilda þær viðvaranir fram á kvöld. Á þessum slóðum má búast við talsverðum vindi og skafrenningi með lélegu skyggni á fjallvegum.

Engin viðvörun er í gildi á höfuðborgarsvæðinu í dag en þrátt fyrir það má búast við 13-20 metrum á sekúndu fram eftir degi og slyddu eða rigningu þegar líður á daginn. Undir kvöld verður hægari vindur og stöku él og hiti á bilinu 0 til 4 stig.

Eins og komið hefur fram eru talsverðar breytingar fram undan og taka gular viðvaranir gildi um allt land klukkan 17 á morgun.

Click here to preview your posts with PRO themes ››

„Veðurspár gera ráð fyrir lægðagangi, með hvössum sunnanáttum, stormi eða roki og úrhellisrigningu á sunnan- og vestanverðu landinu. Spáð er asahláku víða um land, miklu álagi á fráveitukerfi og fólk því hvatt til að hreinsa vel niðurföll og skurði til að forðast vatnstjón. Einnig má búast við hálku á vegum og eru ökumenn hvattir til að aka mjög varlega, einkum ef ökutækin eru viðkvæm fyrir vindum,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Þessar gulu viðvaranir verða í gildi alla helgina og er ekki búist við því að veðrið gangi niður fyrr en á mánudag. Á vef Veðurstofunnar kemur fram að á miðvikudag megi svo aftur búast við sunnanhvassviðri með úrhellisrigningu.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á laugardag: Sunnan 15-23 m/s og rigning eða slydda með köflum, en bjart með köflum norðaustanlands. Dregur heldur úr vindi síðdegis. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast fyrir norðan.

Á sunnudag: Gengur í suðaustanstorm eða -rok með talsverðri rigningu og hlýindum, einkum suðaustanlands, en suðvestlægari sunnantil um kvöldið.

Á mánudag og þriðjudag: Suðvestanátt með éljagangi, en bjartviðri norðaustantil og kólnandi veður.

Á miðvikudag: Búast má við sunnanhvassviðri með úrhellisrigningu og hlýnandi veðri í bili.

Populære artikler