Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur ákært Aðalstein Lárus Skúlason fyrir fjársvik með því að hafa blekkt forsvarsmenn húsfélags á Reykjavíkursvæðinu til þess að afhenda sér samtals 993.892 krónur í þremur greiðslum. Peningarnir áttu að fara í kaup á efni vegna fyrirhugaðs viðhalds á fasteign húsfélagsins sem og staðfestingargjald fyrir þá vinnu sem framundan var.
Framkvæmdirnar hófust hins vegar aldrei og sátu forsvarsmenn húsfélagsins uppi með sárt ennið vegna þessara svika. Ákæra málsins var auglýst í Lögbirtingablaðinu en ekki tókst að afhenda hana Aðalsteini sem talinn er búa erlendis.
Athygli vekur að umrædd svik áttu sér stað á vormánuðum 2019 og því eru tæplega sjö ár liðin frá þeim. Óhætt er því að fullyrða að talsverður dráttur hafi verið á rannsókn málsins.
Kærur höfðu lítil áhrif
DV fjallaði talsvert um athafnasemi Aðalsteins og Sverris, sem áður hét Róbert, Guðmundssonar á árum áður. Sverrir var þá í forsvari fyrir félagið ALS húsaviðgerðir, sem glöggir sjá að eru upphafsstafir Aðalsteins. Gerði félagið tilboð í fjölmörg smærri verk og voru verðin iðulega hagstæð. Illu heilli voru þó hvorki Sverrir né Aðalsteinn með tilskilin réttindi til þess að inna verkin af hendi.
„Vinnubrögð hans eru ótrúleg, hann vill fá greitt áður en hann byrjar. Síðan byrja hótanir og heimtar meiri peninga og þá springur allt í loft upp,“ sagði Már Guðmundsson, þáverandi formaður Málarameistarafélagsins, um starfshætti Sverris í samtali við DV á sínum tíma.
„Við erum búnir að kæra manninn oftar en tvisvar. Það fjarar alltaf út og hann heldur uppteknum hætti,“ bætir Már við. „Ég hef sjálfur í tvígang mætt á vinnustað hjá honum og hringt á lögreglu. Þá er tekin skýrsla og svo er málið látið niður falla. Svör lögreglunnar voru þau að það svaraði ekki kostnaði að halda áfram með málið,“ sagði Már.
Einhver krakki í Hveragerði
Hlutverk Aðalsteins var hins vegar aðeins það að vera skráður fyrir félaginu og taka við greiðslunum samanber áðurnefnda umfjöllun:
Skráður eigandi ALS Húsaviðgerða er Aðalsteinn Lárus Skúlason, einstaklingur sem næst aldrei samband við að sögn heimildarmannsins. Aðalsteinn byrjaði ungur að láta að sér kveða í viðskiptum og var um tvítugt þegar allir helstu fjölmiðlar landsins greindu frá því að hann hefði stofnað rafbílaleigu. Fyrirtækið ALS er nú skráð á kennitölu þess fyrirtækis sem kom að bílaleigunni.
Þá segir heimildarmaður DV að lögreglan hafi ekki fengið símanúmerið hjá Aðalsteini. „Sverrir hefur alltaf neitað að gefa upp þetta númer, þótt hann segist vera að vinna fyrir hann.“
Þegar blaðamaður hafði samband við ALS Húsaviðgerðir svaraði Sverrir í símann og útskýrði að ekki væri mögulegt að ná tali af Aðalsteini nema gegnum tölvupóst. Þegar hringt er í númer Aðalsteins í símaskrá eru skráð tvö númer en bæði númer eru lokuð.
„Aðalsteinn er prókúruhafi sem Sverrir felur sig svo á bak við, en þetta er í rauninni bara einhver krakki í Hveragerði,“ segir heimildarmaður DV.
Mikilvægt að leggja fram kærur
„Ég verð að viðurkenna að ég var löngu búinn að gleyma þessu máli og því kom mér á óvart þegar mér var tilkynnt um að ákæran hefði verið gefin út,“ segir einn forsvarsmanna áðurnefnds húsfélags sem lenti í svikamyllunni árið 2019. „Maður er ekkert rosalega stoltur af því að hafa fallið fyrir þessu. Tilboðið var of gott til að vera satt,“ segir hinn svikni en fyrir lá að fyrirtæki Aðalsteins hafði sinnt öðru smærra verki og staðið við sitt hvað það varðar.
Click here to preview your posts with PRO themes ››
„Það hefur greinilega orðið mikill dráttur á rannsókn þessa máls og það er kannski skiljanlegt. Þetta eru lágar upphæðir í stóra samhenginu og sennilega ekki efst á forgangslista lögreglu, það er sennilega það sem þessir aðilar hafa gert út á. Ég held samt að þetta sýni að það er mikilvægt að leggja fram kærur í svona málum frekar en að skammast sín og gera ekkert. Málin safnast upp gegn svona aðilum og þá er líklegra að gripið verði til aðgerða,“ segir hann.


