Kæru hundaeiganda í Grímsnes og Grafningshreppi vegna ákvörðunar sveitarstjóra um að banna honum að halda hund sinn hefur verið vísað frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Byggði ákvörðunin á því að hundurinn hafi gengið laus í trássi við reglur og bitið lamb þrátt fyrir að eigandinn hefði verið áminntur um að passa betur upp á hundinn. Hafði hundurinn raunar verið ásakaður um fjölda annarra árása á lömb. Eigandinn vísaði ásökununum hins vegar alfarið á bug en nefndin segir sveitarstjórann ekki hafa haft vald til að banna eigandanum að halda hundinn.
Sveitarstjórinn tilkynnti hundaeigandanum um bannið í september á síðasta ári en kæran var lögð fram í nóvember.
Eigandinn var upplýstur með bréfi í ágúst um að sveitarfélaginu hefðu borist kvartanir vegna brota hans á samþykkt um hundahald í Grímsnes og Grafningshreppi. Vísað var til ákvæða í samþykktinni um að hundar skyldu aldrei ganga lausir á almannafæri auk þess sem hundaeigandi bæri ábyrgð á því að hundur hans raski ekki ró íbúa sveitarfélagsins. Vakin var athygli á því að samkvæmt samþykktinni væri heimilt að fjarlægja viðkomandi hund vegna umræddra brota, en ef um alvarleg eða ítrekuð brot væri að ræða hefði sveitarfélagið heimild til þess að taka hund af skrá sveitarfélagsins og banna umráðamanni að halda hundinn í sveitarfélaginu. Með vísan til samþykktarinnar var tekið fram að erindið fæli í sér skriflega áminningu og að úrbóta væri vænst.
Árás
Í tilkynningu til sveitarfélagsins í september 2025 kom fram að hundurinn hafi verið laus, ráðist á lamb og bitið það. Hundurinn var tekinn sama dag og komið fyrir í umsjá dýraeftirlitsmanns sveitarfélagsins. Með bréfi sveitarstjóra til eigandans var tekið fram að til álita kæmi, vegna ítrekaðra brota hans gegn samþykkt um hundahald í sveitarfélaginu, að banna honum að halda hundinn. Hundaeigandanum var gefinn kostur á nýta andmælarétt sinn sem hann gerði. Sveitarstjórinn tók síðan í kjölfarið þá ákvörðun, sem hann tilkynnti með bréfi til eigandans, að banna honum að halda hundinn.
Ósannað
Í kæru hundaeigandans til nefndarinnar kemur fram að Grímsnes og Grafningshreppur hafi ekki skjalfest helstu ásakanir í garð hundsins. Ásakanir um að hundurinn væri grunaður um að hafa ráðist á allt að 31 lamb væru eingöngu byggðar á símtölum þar um. Það hafi aldrei verið á það minnst við hann fyrr en í tilkynningunni um að honum væri bannað að halda hundinn. Sagðist hundaeigandinn hafa ávallt sagst taka fulla ábyrgð og lofað að greiða bætur vegna skaða sem hundurinn eigi að hafa valdið, en á móti krafist gagna og sannana.
Vildi eigandinn meina að sveitarfélagið héldi því ranglega fram að hann hafi ekki sinnt fyrri viðvörunum og nýtt andmælarétt. Hið rétta væri að hann hafi talið sig standa í sáttarferli við sveitarstjóra. Frá byrjun hafi honum verið tjáð að verið væri að taka saman öll gögn vegna málsins og frekari svörum við spurningum hans ekki borist. Með vísan til gagna málsins blasti við hvernig sveitarfélagið kæmi sér undan að hafa hlutina skriflega. Sagðist eigandinn hafa óskað eftir því að fá fundargerðir um mál sitt en þeirri beiðni annað hvort verið hafnað eða ekki sinnt. Hafi hann leitast við að finna eitthvað um málið í fundargerðum sveitarfélagsins en án árangurs.
Click here to preview your posts with PRO themes ››
Sagði hundaeigandinn að óheilindi væru í vinnubrögðum sveitarfélagsins. Hundurinn væri honum mikilvægur og væri hann tilbúinn til að halda uppeldi og þjálfun hundsins áfram.
Fengið tækifæri
Í andsvörum Grímsnes- og Grafningshrepps kom fram að hundaeigandinn hafi verið sviptur hundinum vegna ítrekaðra brota hans gegn samþykkt um hundahald í sveitarfélaginu. Hann hafi fengið áminningu og verið veittur frestur til úrbóta en þrátt fyrir það hafi skömmu síðar komið upp atvik þar sem hundurinn hafi verið laus og bitið lamb.
Hvað varðaði fullyrðingar hundaeigandans um að hann hefði ekki fengið aðgang að öllum gögnum málsins vildi sveitarfélagið meina að hann hefði fengið öll þau gögn sem hann ætti rétt á. Vinnugögn svo sem tölvupóstsamskipti starfsmanna sveitarfélagsins vegna málsins væru undanþegin rétti eigandans til upplýsinga.
Í viðbótarathugasemdum vísaði hundaeigandinn til upptöku en óljóst er hvort hún er af atvikinu sem varð til þess að honum var bannað að halda hundinn. Sagði hann upptökuna sýna og sanna að hundur hans hafi bara verið að leika sér. Sagðist eigandinn sjálfur hafa haft samband við lögreglu og Matvælastofnun sem hefðu ekki gert neinar athugasemdir. Hafi hann að auki fengið hundaþjálfara með yfir 20 ára starfsreynslu til að leggja mat á myndbandið. Að hans mati hafi hundurinn bara verið að leika sér.
Hundaeigandinn andmælti því að hundurinn hafi oft verið staðinn að verki og hann sem eigandi hundsins fengið margar viðvaranir. Hundurinn hafi verið tekinn í fyrsta skipti sem hann hafi verið gripinn og enginn miskunn sýnd þrátt fyrir vitneskju um að búnaður væri á leiðinni til hans sem myndi koma í veg fyrir að hundurinn gæti sloppið.
Mátti ekki
Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er vitnað í samþykkt um hundahald í Grímsnes og Grafningshreppi. Þar komi fram að eigendur eða forráðamenn hunda sem brjóti gegn ákvæðum hennar skuli sæta skriflegri áminningu og gefinn hæfilegur frestur til úrbóta. Einnig segi að sveitarstjórn geti bannað viðkomandi að halda hund og látið fjarlægja hundinn ef eigandi eða forráðamaður hunds vanræki skyldur sínar eða brjóti ítrekað gegn ákvæðum samþykktarinnar.
Minnir nefndin á að í sveitarstjórnarlögum sé ákvæði um að fastanefndir sveitarfélaga geti farið með fullnaðarafgreiðslu vissra mála og það sé einnig heimilt að fela það verkefni einstaka starfsmönnum. Sé sú heimild nýtt skuli kveða á um það í samþykkt sveitarfélagsins.
Í samþykkt um stjórn og fundarsköp Grímsnes og Grafningshrepps komi hins vegar ekkert fram um að sveitarstjóranum sé falin heimild til fullnaðarafgreiðslu mála.
Nefndin segir þar með ljóst að sveitarstjórn Grímsnes og Grafningshrepps hafi ekki framselt vald sitt til fullnaðarafgreiðslu mála sem afgreidd séu á grundvelli samþykktar sveitarfélagsins um hundahald. Hafi sveitarstjóra því skort vald til að taka ákvörðun um að banna hundaeigandanum að halda umræddan hund og breyti engu í þeim efnum þótt hann hafi undirritað hina kærðu ákvörðun fyrir hönd sveitarstjórnar, en af þeim fundargerðum sem aðgengilegar séu á vefsíðu sveitarfélagsins verði ekki séð að sveitarstjórn hafi tekið ákvörðun um að banna hundaeigandanum að halda hundinn.
Er það niðurstaða nefndarinnar að þar með liggi ekki fyrir ákvörðun sem bindi enda á málið, í skilningi stjórnsýslulaga, og þar af leiðandi verði að vísa málinu frá.


