Íslendingarnir sem létust í umferðarslysi í Suður-Afríku í vikunni voru aðstandendur drengs sem er í meðferð í landinu. Þær sem létust voru systir drengsins og föðuramma.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu aðstandenda til fjölmiðla sem meðal annars Vísir og Mbl.is greina frá. Faðir drengsins var einnig með í för og er hann þungt haldinn á sjúkrahúsi.
„Við erum harmi slegin og engin orð fá lýst þeirri sorg sem fjölskyldan gengur nú í gegnum,“ kemur fram í yfirlýsingu frá fjölskyldunni sem Vísir vitnar til.
Pilturinn er í meðferð á meðferðarheimilinu Healing Wings og hafði fjölskyldan ferðast til Suður-Afríku til að eyða jólunum með drengnum og fara með gjafir til þeirra drengja sem þar dvelja.
„Við biðlum til fjölmiðla að veita fjölskyldumeðlimum og öðrum aðstandendum frið á þessum ólýsanlega erfiðu tímum og forðast óþarfa fréttaflutning um málið. Frekari upplýsingar verða ekki veittar að svo stöddu,“ segir í tilkynningunni sem Vísir vitnar til.

