fredag, januar 16, 2026

Top 5 i denne uge

Relaterede indlæg

Jón Pétur varpar ljósi á skuggalega þróun – „Þetta eru tvö raunveruleg dæmi sem ótrúlega mörg börn og ungmenni geta sogast inn í“

Jón Pétur Zimsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, heimsótti nýverið Europol og Eurojust og fékk þar innsýn í alvarlega og óhugnanlega glæpastarfsemi. Jón Pétur skrifar grein um þetta á vef Vísis þar sem fyrirsögnin er 764 – landamæralaus tala skelfilegs ofbeldis.

Í greininni segir hann meðal annars:

„Númer póstfangs í Texas er nú orðið samnefnari viðurstyggilegrar starfsemi sem meðal annars gengur út á að festa börn og ungmenni í net glæpamanna í gegnum samfélagsmiðla og kúga þau til að gera hræðilega hluti, til dæmis að fremja ofbeldisglæpi, skaða sig sjálf, sína nánustu og/eða gæludýr.“

Alvarleg brot og erfið í sönnun

DV hefur áður fjallað 764 og fleiri sambærilega hópa sem hverfast um að fá viðkvæm börn til að gera skelfilega og óhugnanlega hluti.

Sjá einnig: Andstyggilegir hópar herja á börn og neyða þau til að gera niðurlægjandi hluti

Sjá einnig: Lögreglan varar við sadískum Internethópi – „Óhugnaður í nýjum hæðum“

Sjá einnig: Íslensk stúlka í klóm erlendra netníðinga – Myndbönd af henni alblóðugri til sýnis á spjallrás

„764 er ekki hefðbundin skipulögð glæpastarfsemi, en hún notar sömu aðferðafræði og svokallað crime as a service; dreifða ábyrgð, verkaskiptingu og netmiðaða framkvæmd. Það gerir brotin bæði alvarlegri og erfiðari í sönnun,“ segir Jón Pétur.

Hefur smitast hratt um Skandinavíu

Hann segir að í heimsókn sinni til Europol og Eurojust hafi komið fram að Svíþjóð sé vagga þessarar aðferðafræði og hún hafi smitast hratt til Noregs og Danmerkur. Þá hafi einhver mál komið upp hérlendis og líklega séu þau mun fleiri sem þagað er um, enda sum mál eingöngu rafræn á milli gerenda og þolenda, til dæmis þegar um sjálfsskaða er að ræða.

Click here to preview your posts with PRO themes ››

„Hvaða gildrur setja ofbeldismennirnir upp? Ég tek hér tvö algeng dæmi, en lykilatriðið er að komast yfir persónuupplýsingar þolenda og nota þær sem hluta af ógninni,“ segir Jón Pétur í grein sinni og heldur áfram:

„Börn og ungmenni rekast á „tilboð“ á samfélagsmiðlum, til dæmis 10.000 krónur fyrir að kasta flugeldi inn um glugga og taka verknaðinn upp. Þetta getur virst spennandi og greiðslan bónus. Til að taka við henni þurfa þau að gefa upp persónuupplýsingar sem var markmið ofbeldismannanna. Þá er greitt fyrir önnur „minniháttar“ verkefni og safnað er í svokallaðan kúgunarbanka. Í kjölfarið er hótað birtingu upplýsinga nema tekið sé þátt í grófara ofbeldi, sem ítrekað hefur endað í grimmilegu ofbeldi og jafnvel morðum.“

Raunveruleg dæmi

Hann segir svo að annar dæmi sé þegar ofbeldismenn leita uppi hópa á netinu þar sem vanlíðan er samnefnari, til dæmis tengda átröskunum.

„Þar eru stúlkur oftast skjallaðar og kaffærðar í „ást“ og hrósi. Í skjóli trausts senda þær myndir þar sem sjálfsskaði sést og/eða nektarmyndir, kúgunarbankinn er orðinn til. Síðan er til dæmis boðist til að senda mat eða snyrtivörur, sem krefst heimilisfangs. Þegar það liggur fyrir hefjast kröfur um sífellt grófara myndefni og/eða sjálfsskaða á stúlkum, systkinum eða gæludýrum og allt tekið upp. Þetta eru tvö raunveruleg dæmi sem ótrúlega mörg börn og ungmenni geta sogast inn í.“

Jón Pétur endar grein sína á að segjast vera nokkuð viss um að mörg börn og flest ungmenni þekki talnarununa 764 og hafi jafnvel verið boðið eitthvað eða fengið „falleg“ skilaboð.

„Europol kallaði eftir vitundarvakningu almennings í Evrópu. Óafturkræfir hlutir gerast hratt, hlutir sem geta eyðilagt líf. Foreldrar, verum á varðbergi því netið virðir engin landamæri.“

Populære artikler