lørdag, januar 31, 2026

Top 5 i denne uge

Relaterede indlæg

Móðir Ólafar Töru minnist hennar – „Ekki einu sinni dauðinn getur rofið þessa tengingu“

Eitt ár er nú liðið frá láti baráttukonunnar Ólafar Töru Harðardóttur, sem tók eigið líf á heimili sínu aðfaranótt fimmtudagsins 30. janúar árið 2025.

Ólöf Tara var einn stofnenda samtakanna Öfgar og var mjög virk í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi.  Hlaut hún og samtökin Öfgar margar viðurkenningar fyrir hugsjónastarf sitt og héldu mörg erindi um kynbundið ofbeldi, meðal annars á vettvangi Mannréttindaskrifstofu Íslands. Einnig ávörpuðu þær Sameinuðu þjóðirnar um kvennasáttmálann og funduðu með fulltrúum Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn kynbundnu ofbeldi.

Móðir Ólafar Töru, Tinna Arnardóttir, minnist dóttur sinnar í áhrifaríkum pistli á Facebook þar sem hún veltir fyrir sér sorgarferlinu. Hún segir að hún þurfi að leyfa sorginni að vera hluti af sér.

Pistillinn er eftirfarandi:

„Til þín

Þann 4. janúar 2025 keyrði ég með þér suður, og við eyddum viku saman, áttum djúpar samræður um lífið, tilveruna og tilganginn. Þann 10. janúar faðmaði ég þig í síðasta sinn, kyssti þig, sagði ég elska þig, svo keyrði ég heim norður til Húsavíkur. Tuttugu dögum síðar, þann 30. janúar 2025 varstu látin, og heimurinn minn breyttist í eyðimörk.

Ég hef síðustu vikurnar verið að reyna horfa yfir og skilja atburði síðasta árs. Ég leyfi minningum að flæða fram. Bréfið frá þér, biðin eftir að fá andlát þitt staðfest, ferðin suður, útförin, afmælið þitt, þungu sporin yfir því að þurfa færa krossinn þinn frá pabba og mömmu yfir í Sólland, Druslugangan, Ljósagangan, Rúv þættirnir. Ég safna þessum brotum saman, reyni að meðtaka þetta allt og skilja, en hugurinn segir nei og hjartað grætur.

Eftir að hafa missa þig upplifði ég ótal tilfinningar, og geri enn, uppnám, örvæntingu, vonleysi reiði, hjálparleysi, endalausan sársauka og miklu miklu fleiri tilfinningar sem ég kann ekki að koma orðum að. Fyrstu dagana og vikur dundi spurningin í höfðinu á mér “Hvernig á ég að lifa án þín?”, og þegar ég hélt ég gæti ekki meir, heltist yfir mig afneitun og doði, án þess hefði hjartað mitt endanlega brostið. Afneitunin gerði mér kleift að komast yfir fyrstu mánuðina, aftengdi mig svo ég skildi ekki til fulls hvað hafði gerst. Doðinn hinsvegar lá eins og þrýstingur á hjartað, en engin tilfinning, veitti mér hvíld frá tilfinningaóreiðunni.

Ég er að halda áfram, en það eru erfið og þung spor. Spor sem ég þarf að minna mig á hverjum degi að stíga. Hvernig verður framtíðin án þín ? Verður söknuðurinn alltaf svona sár ? Mun sársaukinn einhverntímann minnka? Þessar spurningar fylla mig óöryggi og ótta. Ég tek þau þó, skref fyrir skref, skoða, prófa, fikra mig áfram, leyfi mér að gráta sýni mér mildi, gef mér tíma.

Ég hef setið löngum stundum með þér í sársaukanum, talað við þig, strokið vangann þinn eftir myndum og sett þær upp að hjarta mínu til að finna fyrir þér, leyft tárunum að falla á þig. Í sársaukanum og myrkrinu hefur þú samt gefið mér ljós, það er nefnilega þannig að ekkert myrkur er nema það hafi verið ljós og ekkert ljós er nema það hafi verið myrkur. Ég þarf bara að vanda mig að fylgja þessu ljósi.

Tengingin milli móður og dóttur er sérstök og ólýsanleg, hún er eins og sterk rót sem vex djúpt í jörðinni. Móðirin er við hlið dótturinnar í fyrstu skrefunum, kennir, passar, leiðbeinir, elskar og hlúir að. Þær deila ótal fallegum minningum, broslegum atvikum, erfiðum augnablikum og rifrildum. Ekki einu sinni dauðinn getur rofið þessa tengingu. Þessi tenging gefur skynjun um það sem hefur tapast, að sama skapi er það sú skynjun sem gerir mig sterkari, veikari, mildari og kennir mér hversu dýrmætur tíminn er.

Mér hefur einnig orðið ljóst að ég þarf að leyfa sorginni yfir þér að vera hluti af mér, en ekki öll ég. Ég er að vinna í því að finna ró í því að samþykkja að á þann hátt munum við alltaf vera tengdar og þannig verður þú einnig ávallt partur af mér.

Þegar ég skoða sjálfan mig, sé ég skugga af þeirri mannsekju sem ég var áður. Ég sé konu sem hefur gengið í gegnum mikinn sársauka, en einnig sé ég hana sem er að fæðast að nýju. Það er kona býr yfir styrk sem hún vissi ekki að hún hefði, það er kona sem skynjar nýja stefnu í lífinu, það er kona sem vill halda áfram með þau verkefni sem þú varst byrjuð á, nýta reynslu sína og hjálpa öðrum. Þín barátta er því einnig orðin mín barátta, en bara á ólíkan hátt. Þannig get ég haldið nafni þínu á lofti. Þannig get ég heiðrað minningu þína og látið gott af mér leiða. Elsku fallega Ólöf Tara mín, þú varst sannkallaður brautryðjandi, núna er tímabært að byrja sá í jarðveginn.

Hver nýr dagur er áminning um að ég sé hér, á lífi og get haldið áfram. Ég vel að finna fegurðina sem leynist í litlu hlutunum sem þú sást svo mæta vel. Ég vel að gera eins og þú, ég vel að hlú að þeim sem standa mér næst, ég vel að eiga með þeim samverustundir, ég vel að búa til minningar, ég vel að umvefja mitt fólk kærleika, og þó að þú fallega ljósið mitt hafi ekki fundið innri styrk til að halda áfram, þá mun ég gera það fyrir þig. Smá saman mun svo þessi eyðimörk sem yfirtók lífið verða að fallegri vin, minning um einstaka, fallega, sterka konu, konu sem breytti lífi svo margra til hins betra, konu sem ég er stolt af, konu sem var dóttir mín, konu sem var einstök.

Í dag kveiki á kerti fyrir þig og í kvöld mun ég tendra blys og stjörnuljós, því þú elsku Ólöf Tara mín verður alltaf ljós í mínu líf.

Sjáumst síðar skottan mín,

Mamma elskar þig“

Minningarsjóður Ólafar Töru

Click here to preview your posts with PRO themes ››

Minningarsjóður var stofnaður í nafni Ólafar Töru en honum er ætlað að styðju við þau sem eru í framlínunni í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Fyrir þá sem vilja styðja þetta mikilvæga málefni eru reikningsupplýsingar hér að neðan:

Banki: 0357 – 22 – 006171

Kennitala: 451125-0600

Tinna hvetur lesendur til að kveikja á kerti í minningu Ólafar Töru: „Mig langar að biðja ykkur sem þetta lesið að kveikja á kerti í dag eða kvöld, inní eða úti. Búa til fallegt ljós og hlýju á þessum degi fyrir okkar elsku Ólöfu Töru.“

Populære artikler