Eins og DV greindi frá fyrr í morgun virðast landsmenn heilt yfir hafa verið ánægðir með Áramótaskaup RÚV fyrir árið 2025. Sú ánægja er þó ekki algild og eitthvað hefur verið um óánægju með upphafsatriðið þar sem gert var grín að málfari Guðmundar Inga Kristinssonar, sem er í veikindaleyfi frá embætti mennta- og barnamálaráðherra. Eiríkur Rögnvaldsson prófessor emeritus í íslensku við Háskóla Íslands lýsir yfir sérstakri óánægju með atriðið og segir það einfaldlega fela í sér málfarsfordóma sem eigi ekki að líðast, sérstaklega í fjölmiðli eins og RÚV.
Eiríkur tjáir sig um þetta í færslu í Facebook-hópnum Málspjall.
Hann skrifar þar að ekki fyrir svo löngu síðan hafi þótt sjálfsagt og eðlilegt að gera grín að fólki og hæðast að því vegna holdafars, fötlunar, þroskaskerðingar, geðröskunar, kynhneigðar, hörundslitar, trúarbragða og fleiri einkenna:
„Þetta er því miður allt til ennþá í þjóðfélaginu en er sem betur fer að mestu horfið af opinberum vettvangi – við vitum flest að þetta er ekki við hæfi. Það er eðlilegt að gera sérstakar kröfur til almannaútvarpsins, Ríkisútvarpsins, hvað þetta varðar og sérstaklega alvarlegt ef fordómar af þessu tagi koma þar fram. En jafnvel í Ríkissjónvarpinu virðist ein sambærileg tegund fordóma þó enn þykja eðlileg og sjálfsögð – og fyndin. Það eru málfarsfordómar þar sem gert er grín að tilteknum einkennum á máli fólks.“
Á ekki
Eiríkur segir að áberandi fólk í þjóðlífinu verði að láta sér lynda að gert sé grín að skoðunum þess og athöfnum. Það eigi hins vegar ekki að líðast – sérstaklega ekki á RÚV – að hæðst sé að fólki vegna málfars eins og gert var í upphafsatriði áramótaskaupsins:
„Þá skiptir engu máli hvort um er að ræða mennta- og barnamálaráðherra eða einhvern annan. Þarna voru ráðherranum lögð í munn ýmis frávik frá viðurkenndu máli – sum þeirra hafa vissulega komið fram í máli hans en önnur alls ekki, og sum eru ekki eðlilegt mál nokkurra sem eiga íslensku að móðurmáli svo að ég viti. Þið getið kallað mig húmorslausan ef þið viljið, en mér fannst þetta ekki fyndið – og ekki bara það: Mér fannst þetta ósmekklegt, óviðeigandi og beinlínis ljótt.“
Click here to preview your posts with PRO themes ››
Rétt
Eiríkur segir ekkert vafamál að Guðmundur Ingi tali eðlilega íslensku – sömu íslensku og tugir þúsunda annarra sem eigi þetta tungumál að móðurmáli. Hægt sé að hafa þá skoðun að sum einkenni á máli hans falli undir „rangt mál“ sem beri að forðast eða að maður sem tali á þann hátt eigi ekki að vera menntamálaráðherra. Það gefi aftur á móti engum leyfi til að hæðast að málfari Guðmundar Inga:
„Til að setja þetta í samhengi má nefna að við getum haft þá skoðun að óæskilegt og óheilbrigt sé að fólk sé í yfirþyngd, en það gefur okkur ekki leyfi til að vera með opinbera fitufordóma. Þetta er alveg sambærilegt.“
Eiríkur segir loks að nauðsynlegt sé að átta sig á að fordómar gagnvart því málfari sem fólk hafi alist upp við, og sé því eðlilegt, sé engu betri en aðrir fordómar sem hann nefnir voru í upphafi. Þess vegna sé óviðunandi að gert sé opinbert grín að málfari fólks og upphafsatriði áramótaskaupsins hafi verið handritshöfundum og Ríkisútvarpinu til minnkunar:
„En kannski var ekki við öðru að búast, miðað við það sem einn handritshöfunda sagði í Vikunni hjá Gísla Marteini á þriðjudagskvöldið að hefði vantað á síðasta ári til að gera grín að. Höfum það nú áramótaheit okkar að hætta að hæðast að málfari fólks á opinberum vettvangi og temjum okkur virðingu gagnvart öðru fólki og einkennum þess, hvort sem er í málfari eða öðru.“


