Dóra Jóhannsdóttir leikstjóri, handritshöfundur og leikkona fullyrðir í nýjum pistli á Facebook að RÚV hafi tekið leiknu þáttaröðina Húsó úr birtingu á vef sínum. Áður hafi verið kynnt að þáttaröðin yrði aðgengileg á vef RÚV fram í nóvember á þessu ári en þættirnir verði ekki birtir aftur fyrr en framleiðendur hafi afhent uppfærðan lista yfir þá sem stóðu að gerð þáttanna. Dóra er ein af handritshöfundunum en nafn hennar kemur hvergi fram á lista yfir aðstandendur sem birtur var með þáttunum.
Dóra hefur í nokkurn tíma barist fyrir því opinberlega að það komi skýrt fram í þáttunum að hún sé sannarlega ein af handritshöfundunum. Hún tók meðal annars við verðlaunum fyrir handritið á íslensku sjónvarpsverðlaununum. Dóra hefur greint frá því að á meðan hún var í sjúkraleyfi hafi tökur á þáttunum hafist og þá fyrr en áætlað var. Nafn hennar hafi verið fjarlægt af lista yfir aðstandendur og hún segir að ósk hennar um að nota dulnefni þá í staðinn hafi verið hafnað.
Húsó er ekki meðal íslenskra þáttaraða sem aðgengilegar eru í spilara RÚV. Dóra birtir hins vegar með pistli skjáskot af vef RÚV þar sem kemur skýrt fram að ætlunin hafi verið að þættirnir yrðu aðgengilegir fram í nóvember á þessu ári.
Uppfæra
Dóra segir að henni hafi verið boðið að taka þátt í pallborðsumræðum sem kvenkyns höfundi sjónvarpsseríu á kvikmyndahátíðinni í Berlín í febrúar og hafi af því tilefni verið beðin um að senda eintak af Húsó. Hún sé hins vegar í þeirri stöðu að hafa ekki aðgang að eigin verki, sem valdi henni beinum faglegum skaða.
Click here to preview your posts with PRO themes ››
Hún segir RÚV hafa sagt að þáttaröðin verði sett aftur inn þegar framleiðandi, sem er framleiðslufyrirtækið Glassriver, afhendi uppfærðan og réttan lista yfir höfunda, en verkið hafi bæði verið frumsýnt og endursýnt af RÚV án þess að hennar lögbundni höfundaréttur væri virtur.
Dóra segir framleiðendurna hafa hvorki afhent sér né RÚV eintök af Húsó með uppfærðum höfundalista, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir. Engar afleiðingar hafi fylgt þessari töf gagnvart framleiðanda, þrátt fyrir að hún valdi henni raunverulegu og síauknu tjóni. Uppfærsla á slíkum listum sé almennt framkvæmd á skömmum tíma í sambærilegum verkefnum.
Enginn vafi leiki á aðkomu hennar að þáttaröðinni Húsó. Engin svör hafi þó fengist um hvenær framleiðandi hyggist afhenda þættina með leiðréttum höfundalista, þrátt fyrir að framleiðendum beri lögum samkvæmt að geta höfunda.
Krafa
Dóra segir að í nóvember síðastliðnum hafi Rithöfundasamband Íslands sent fyrir hennar hönd RÚV og Glassriver erindi í nóvember sem hafi ekki verið svarað. Rithöfundasambandið hafi sent ítrekun fyrir rúmri viku og lagt áherslu á að orðið verði við kröfu hennar um nafnbirtingu í tengslum við þáttaröðina Húsó án frekari tafa.
Dóra minnir á að RÚV hafi fjármagnað Húsó að stóru leyti, en þættirnir hafi einnig fengið endurgreiðslu frá menningar- nýsköpunar- og háskólaráðuneytinu og handritastyrk frá Kvikmyndamiðstöð. Hún spyr þar af leiðandi:
„Hver ber ábyrgð á því að lögbundinn höfundaréttur sé virtur í ríkisstyrktu verkefni á fjölmiðli í almannaþágu?“


