Maður sem er á meðal 18 sakborninga í stóra fíkniefnamálinu svokallaða, sem einnig er kallað Sólheimajökulsmálið, hefur játað sök í þeim ákærulið sem snýr að honum.
Maðurinn er ákærður fyrir skipulagða brotastarfsemi og stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið að innflutningi á 2.177,60 g af kókaíni sem falið var í tveimur pottum, og flutt fíkniefnin til landsins með skemmtiferðaskipinu AIDAsol sem lagðist við bryggju á Íslandi þann 11. apríl síðastiðinn. Sakborningurinn sem hefur játað kom með efnin ásamt öðrum manni til landsins, hann flutti efnin frá borði og afhenti þau öðrum sakborningi sem var handtekinn með efnin sama dag.
Mál þessa manns verður klofið frá málinu í heild og dæmt sér í því. Þá standa eftir 16 sakborningar og hefst aðalmeðferð í málinu við Héraðsdóm Reykjavíkur þann 28. október næstkomandi.
Eins og DV greindi frá fyrr í mánuðinum hefur annar sakborningur í málinu játað sök. Sá er ákærður fyrir peningaþvætti, umferðarlagabrot og fíkniefnabrot. Er honum gefið að sök að hafa fimmtudaginn 19. október árið 2023 móttekið 12 milljónir og 396 þúsund krónur í reiðufé, sem var afrakstur brotastarfsemi, frá öðrum sakborningi í málinu, á bifreiðaverkstæðinu Bílavogur við Auðbrekku 17 í Kópavogi.
Click here to preview your posts with PRO themes ››
Hann er sagður hafa geymt peningana í bíl sem hann ók sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna bílnum örugglega vegna vímuáhrifa, um Álfabakka til móts við Sambíóin, en þar stöðvaði lögregla aksturinn. Hann er sagður hafa haft í vörslu sinni 9 töflur af lyfseðilsskyldu róandi lyfi.
Hann er ennfremur ákærður fyrir að hafa haft tæplega 30 grömm af amfetamíni á heimili sínu í Yrsufelli, en lögregla gerði húsleit þar.
Möguleiki er á því að fleiri sakborningar í málinu játi sök áður en aðalmeðferð hefst í málinu í lok október.