søndag, januar 18, 2026

Top 5 i denne uge

Relaterede indlæg

Þetta er aldurinn þar sem kynhvöt karla er í hámarki

Sú útbreidda hugmynd að kynhvöt karla minnki jafnt og þétt með aldurinn virðist ekki standast fullkomlega. Þetta er samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem birtust í vísindaritinu Scientific Reports.

Samkvæmt henni nær kynlöngun karla hámarki um fertugt og raunar aðeins eftir fertugt.

Rannsóknin var unnin af fræðimönnum við Háskólann í Tartu í Eistlandi og byggir á gögnum frá rúmlega 67.000 fullorðnum einstaklingum á aldrinum 20 til 84 ára.

Greiningin sýndi að kynhvöt karla eykst jafnt og þétt þegar þeir ná þrítugsaldri og nær svo hámarki rétt eftir fertugt. Þá byrjar hún að lækka smám saman. Athygli vekur að kynlöngun karla sem komnir eru á sextugsaldur er svipuð og hjá tvítugum körlum.

Í frétt Daily Mail kemur fram að niðurstöðurnar hafi komið rannsakendum á óvart, þar sem vel er þekkt að magn testósteróns, helsta karlkynshormónsins, fer að lækka eftir að karlar komast á fertugsaldur. Þrátt fyrir það virðist kynhvöt karla halda áfram að aukast í nokkuð mörg ár eftir það.

Click here to preview your posts with PRO themes ››

Rannsakendur telja þetta benda til þess að aðrir þættir en líffræðileg öldrun, svo sem félagslegar og tengslatengdar aðstæður, hafi veruleg áhrif á kynlöngun.

Í skýringum sínum nefna þeir meðal annars að karlar á fimmtugsaldri séu oftar í stöðugum langtímasamböndum, sem tengjast bæði meiri kynlífsvirkni og aukinni tilfinningalegri nánd.

Þegar kemur að konum er sagan hins vegar önnur. Kynlöngun kvenna er mest þegar þær eru á aldrinum 20 til 30 ára en minnkar síðan með aldrinum og fellur skarpt eftir fimmtugt. Kynlöngun kvenna virðist almennt vera mun minni en kynlöngun karla – jafnvel á hámarki sínu var kynhvöt þeirra að jafnaði lægri en hjá körlum stóran hluta fullorðinsáranna.

Þrátt fyrir þessar almennu niðurstöður var mikill einstaklingsmunur milli þátttakenda. Sumar konur greindu frá meiri kynlöngun en margir karlar, og tvíkynhneigðir þátttakendur reyndust að jafnaði með mesta kynlöngunina.

Populære artikler